Þórður Snær og glæpur Páls skipstjóra

Síminn hringir hjá Páli skipstjóra Steingrímssyni 20. maí í fyrra kl. 14:56. Á línunni er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Daginn eftir ætlar Þórður Snær að birta frétt upp úr stolnum síma skipstjórans. Samtalið er eftirfarandi:

Þórður Snær: Páll?

Páll: Það er hann.

Þórður Snær: Heill og sæll ég heiti Þórður Snær og er ritstjóri Kjarnans. Hvernig sæki ég að þér?

Páll: Bara ágætlega.

Þórður Snær: Þú kannast alveg við mig?

Páll: Jú, jú.

Þórður Snær: Ég ætlaði að segja að við... að okkur hafa borist talsvert magn gagna sem sýna fram á að greinarnar sem þú hefur verið að skrifa undanfarin ár séu unnar í samvinnu við launaða starfsmenn og ráðgjafa innan Samherja.

Páll: Okei.

Þórður Snær: Og vildi einfaldlega gefa þér tækifæri til að bregðast við þessu.

Páll: Þú hefur sem sagt þessi gögn undir höndum?

Þórður Snær: Já.

Páll: Glæsilegt að þú sért búinn að viðurkenna það.

Þórður Snær: Já.

Páll: Ég mun þá afhenda lögreglunni þessar upplýsingar. Þetta samtal er tekið upp. Þú verður spurður út í þetta af lögreglu.

Þórður ítrekar spurninguna um hvort skipstjórinn vilji bregðast við en Páll kveðst ekkert hafa að segja. Samtalinu er slitið. Það mælist rúmlega mínúta að lengd.

Sex dögum fyrir símtalið hafði Páll kært til lögreglu byrlun og símastuld. Skipstjórinn vissi ekki hverjir stæðu að baki atlögunni að sér fyrr en hann fékk símtalið. Verðlaunablaðamaðurinn afhjúpaði sjálfan sig.

Spurningin sem Þórður Snær leggur fyrir Pál, hvort hann hafi fengið aðstoð við að skrifa greinar, er efst í huga ritstjórans. Annars væri það ekki fyrsta og eina spurningin.

Höfuðsynd Páls skipstjóra var að fá aðstoð við að skrifa greinar í fjölmiðla. Fæstir myndu kenna athæfið við stórglæpi. Í meðförum Þórðar Snæs og félaga á Stundinni og RÚV, RSK-miðla, verður þessi fjöður að fimm hænum: skæruliðadeild Samherja. Af símtalinu að dæma væri nær að tala um ritvinnsludeild Samherja.

Til að gögnin kæmust í hendur Þórðar Snæs þurfti að byrla Páli skipstjóra, stela síma hans og afrita. Það eru alvarlegir glæpir, banatilræði, þjófnaður og brot á friðhelgi. Nokkuð langt seilst til að upplýsa hvernig skipstjóri ber sig að við greinarskrif.

Þórður Snær er sakborningur í lögreglurannsókn. Ekki Páll skipstjóri, sem varð fyrir árás á líf, heilsu og einkahagi til að fjölmiðlar mættu upplýsa hvernig stæði á ritstörfum hans.

Í huga ritstjórans er Páll aftur sekari en syndin. Þórður Snær á hinn bóginn maður mannréttinda og sannleikans ,,sem valdið vill kæla." 

Blaðamenn standa að baki líkamsárás og þjófnaði og verðlauna sjálfa sig fyrir verknaðinn. En kalla það ,,kælingu" er lögregla rannsakar glæpinn.

Kómedía mannlífsins gerist ekki svartari.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hvað er að frétta af lögreglurannsókninni?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.10.2022 kl. 09:42

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Myllur réttlætisins mala hægt en mala smátt..

Guðmundur Böðvarsson, 26.10.2022 kl. 10:15

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Maður vill nú fara að sjá fyrir endann á þessu máli. 

Ragnhildur Kolka, 26.10.2022 kl. 14:49

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þar sem ég les Moggabloggið reglulega, hef ég kíkt á þessar greinar þínar um Pál Steingrímsson og Samherja. Vissulega lítur þetta ekki vel út fyrir Kjarnann / Stundina / RÚV og allt það lið, burtséð frá því hvernig Samherjagengið lítur út, en um það fyrirtæki eru skiptar skoðanir.

Hinsvegar tók ég eftir, að í greininni frá Þórði Snæ á vefsíðu Kjarnans, sem þú vitnar til í lok greinar þinnar, segir hann sjálfur:

Í fyrirliggjandi gögnum fundust engar handfastar vísbendingar um að reynt hafi verið að eitra fyrir honum [Páli, innskot TN].

Hver er að ljúga, þú eða Þórður Snær?

Theódór Norðkvist, 26.10.2022 kl. 19:35

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Páll skipstjóri fór i öndunarvél vegna eitrunar. Skrifleg játning liggur fyrir frá geranda að hann hafi byrlað Páli. Nokkuð handfast það, finnst mér.

Páll Vilhjálmsson, 26.10.2022 kl. 20:33

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Það er margt handfast í lífinu, og að vitna beint í texta um skráð símtal, sem lögreglan skráði, er dæmi um eitthvað sem allir hljóta að viðurkenna að sé handfast.

Rökfærsla þín er líka solid, ég hygg að seinni tíma greinendur, þeir sem yfirleitt eru kenndir við sagnfræði, en gæti jafnvel komið til tals í svo ólíkum greinum eins og stjórnmálafræði eða rökfræði, munu telja pistla þína ákveðna þungavigt í samtíma umræðu þjóðarinnar á upphafs-áratugum 21. aldarinnar, líkt og sess greina Jónasar frá Hriflu hafa í söguskýringum upphafs-áratuga 20. aldarinnar.

Samt ertu eyland Páll, nema félagi Heimir hefur ekki gefist upp á þér eftir eindreginn stuðning þinn við innrás Pútíns.

Ég hygg samt að þegar upp er staðið, þá mun enginn spyrja um annað sem hér er sagt, eða hve einangraðar Tilfallandi athugasemdir voru, heldur verður bent á einurðina, rökfærsluna, sem og stílfærsluna á köflum.

Líkt og einhverjir töfrar eigi sér stað á um hundrað ára fresti.

Þá verður bitinn í hundskjafti gleymdur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.10.2022 kl. 17:17

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég var búinn að fallast á röksemd Páls (Vilhjálmssonar) sem góða og gilda, en athugasemd þín (Ómar) ruglar mig svolítið í ríminu.

Þú talar um texta um skráð símtal, sem lögreglan skráði. Sem sagt það var skrifað niður sem var sagt í símtalinu. Var símtalið sjálft ekki hljóðritað?

Hvað um það, ef þessi maður viðurkenndi að hafa eitrað fyrir Páli (Steingrímssyni) er ekki búið að handtaka hann? Ætti ekki að vera löngu búið að því og láta hann játa skriflega, í eigin persónu á lögreglustöð? Gengur þessi maður ennþá laus?

Afsaka margar spurningar, er bara forvitinn. Málið ætti að vera upplýst í ljósi framanritaðs og case closed, en ég minnist ekki að hafa séð frétt þar að lútandi, þó ég fylgist ekki daglega með fréttum af Íslandi.

Theódór Norðkvist, 27.10.2022 kl. 19:28

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Theodór.

Ég hefði haldið að það hefði verið hljóðritað og Páll sé að vitna í þá hljóðritun.

Blaðamaðurinn er ekki gerandinn, það er vitað hver hann er og ég veit ekki annað en að það mál sé í ferli.

RSK miðlarnir virðast hinsvegar vera hreyfiafl í þessu máli, það hefur Páll afhjúpað og rekið flótta þeirra svo lengur er ekki hægt að tala um Undanhald samkvæmt áætlun, svo marga hringi um jörðu  hafa þeir hlaupið á flótta sínum.

Það er það sem stendur uppúr, og ég hef sjaldan á síðari tímum lesið eins magnaðan texta eins og á þeim flóttarekstri.

Þetta mál verður klárað, ekki svæft í skúffu lögreglunnar, um það sáu RSK blaðamennirnir í hroka sínum þegar þeir töldu sig hafna yfir lög og rétt, og klíndu á lögreglustjóra Norðurlands Eystra að hann væri í vasanum á Samherja, enda með aðsetur á Akureyri líkt og Samherji.

Leitun er að meiri fíflum í vörn sinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.10.2022 kl. 07:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband