Þriðjudagur, 25. október 2022
Skítugar sprengjur í hreinu stríði?
Ef kjarnorkusprengja, skítug eða ekki, verður sprengd í Úkraínu færist heimurinn nær ragnarökum. Eftir Híroshíma og Nagasaki í lok seinna stríðs er kjarnavopnum ekki beitt í stríðsátökum. Ein sprengja réttlætir aðra sem aftur kallar á þá þriðju.
Eyðingarmáttur kjarnorku er slíkur að siðmenningunni stendur ógn af. Notkun þessara vopna fæli í sér meiri manngerðar hamfarir en nokkur sögulega dæmi eru um og gæti bókstaflega gert heiminn óbyggilegan.
Vísun í geislavirk vopn sem ,,skítugar sprengjur" gefur til kynna að stríðið á gresjum Garðaríkis sé hingað til í einhverjum skilningi ,,hreint". Því fer víðsfjarri. Fallnir og særðir eru líklega á skrifandi stundum milli 300 og 400 þúsund, mest ungir karlmenn. Akrar og innviðir ónýtast og milljónir flýja.
Sporin hræða. Stórstríðið sem hleypti öllu í bál og brand á öðrum áratug síðustu aldar hófst með ,,skítugu" morði á ríkiserfingja Austurríkis-Ungverjalands miðsumars 1914. Enginn ráðamaður stórríkjanna ætlaði að efna til fjögurra ára stríðs sem kostaði milljónir mannslífa og bjó í haginn fyrir grimmilega öfgahugmyndafræði er stefndi lóðbeint til seinna stríðs. Samt varð það niðurstaðan.
Sé haft í huga um hvað barist er þar eystra, öryggishagsmuni Rússlands annars vegar og hins vegar fullveldisrétt Úkraínu, er þyngra en tárum taki að siðmenningin sé ekki lengra komin en svo að blóðfórnir á iðnaðarskala þurfi til vegna ágreinings sem má leysa með samningum.
Orðræða um beitingu kjarnavopna í Úkraínu vekur vonandi nægan hroll með siðmenntuðum að friðarúrræði komist á dagskrá. Ellegar má örvænta um þetta skrítna fyrirbæri, mannkyn.
Skítug sprengja ekki á dagskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég vil meina að á bak við Biden séu (óbeint) vopnaframleiðendur og þeir hafi komið honum í forsetastól og hann verði að standa í amk. einu stríði í staðin.
Nato er náttúrulega búið að vera að pota í björnin í gegnum Úkraínu.
Ég er viss um að það gæti verið búið að semja ef vilji væri fyrir hendi, það virðist bara áhugi á vesturlöndum að stofna til annarrar heimstyrjaldar.
Emil Þór Emilsson, 25.10.2022 kl. 08:05
Biden hefur sagt að þetta snúist ekkert um Úkraínu
Hver trúði því líka að það snérist um Qatar en ekki olíu þegar USA réðist á Írak þó vissulega hafi áróðusvélum CIA teksit frábærlega upp með að selja heiminum (hina staðföstu þjóða) hugmyndina um að gjöreyðingarvopn væri að finna inni á hverjum kamari hjá Hussein
Grímur Kjartansson, 25.10.2022 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.