Ragnar Þór og Sólveig splundra ASÍ

ASÍ gerir hvorki kjarasamninga né boðar verkföll. Það gera einstök stéttarfélög. ASÍ er aftur vettvangur verkalýðsfélaga að móta stefnu og áherslur. Þá er ASÍ samráðsaðili Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda.

Allt stefnir í að Ragnar Þór formaður VR og Sólveig Anna formaður Eflingar yfirtaki ASÍ. Bæði eru pólitískir aðgerðasinnar sem nota félagsauð verkalýðshreyfingarinnar að komast til valda og áhrifa. Fyrir fjórum árum vildi Ragnar Þór  ,,mót­mæla stjórn­mála­ástand­inu á Íslandi" og pantaði gul vesti. Sólveig Anna er ásamt Gunnari Smára þekktasta andlit Sósíalistaflokksins.

Helsta mein íslensks samfélags er, að áliti Ragnars Þórs og Sólveigar, að þau sjálf hafa ekki nóg völd.

Þeim er hjartanlega sama um launafólk og almenning. Orðfæri beggja einkennist af tilfinningaþrungnum slagorðavaðli um stéttabaráttu og óréttlæti heimsins. Bæði gera út á að fólk sé fífl. Ísland er eitt mesta jafnlauna land í heimi en samkvæmt Ragnari Þór og Sólveigu Önnu er nær ólíft á Fróni vegna misskiptingar auðs.

Þorri talsmanna launafólks er með báða fætur á jörðinni og vita nógu mikið um mannlífið og vinnumarkaðinn til að ná ásættanlegum málamiðlunum. En á þetta fólk er ekki hlustað. Tvíeykið með stóru yfirlýsingarnar fær fyrirsagnir og við það situr.

ASÍ í höndum aðgerðasinna dæmist úr leik. Engin eftirspurn er í samfélaginu eftir byltingu. Rétt eins og Sólveig stútaði Eflingu fer ASÍ á tjá og tundur. Miðstöð verkalýðsfélagana verður fórnað fyrir valdaskak einstaklinga með hégóma í öfugu hlutfalli við mannvit.

Týpur eins og Ragnar Þór og Sólveig Anna þrífast ekki í heimi málamiðlana. Þau heimta allt eða ekkert. Þannig fer fyrir ASÍ. Skötuhjúin fá ASÍ og ekkert verður eftir af sambandinu sem kennt er við alþýðu. 


mbl.is Sólveig býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband