Mánudagur, 5. september 2022
Vopnatak, viðskipti og 190 ára bók
Hundrað og níutíu ára gömul bók fær nú fleiri tilvitnanir en löngum áður, skrifar aðalálitsgjafi þýsku útgáfunnar Die Welt. Bókin Um stríð kom út 1832 að höfundi látnum, Karli von Clausewitz. Frægasta setning bókarinnar er að stríð sé framhald stjórnmála.
Fyrir skemmstu, um miðjan síðasta áratug, áttu viðskipti að verða framhald stjórnmála. Rétt fyrir embættislok reyndi þáverandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama, að blása lífi í viðskiptasamning þvert á Atlantsála, TTIP. Tilgangurinn var að bjarga vestrænni alþjóðahyggju.
Um sama leyti risu úfar með Úkraínu og Rússlandi. Bylting í Kænugarði velti úr sessi forseta sem flúði á náðir Pútín í Moskvu. Úkraína varð vestrænt verkefni á landamærum Rússlands.
Vestræn alþjóðahyggja þrífst á ódýrri hrávöru og orku frá öðrum heimshlutum til iðnaðar- og hátækniframleiðslu. Rússland á gnótt orku og hrávöru. Vandamálið frá aldamótum, þegar Pútín tók við að Jeltsín, er að Rússar spila ekki með, láta sér ekki vel líka forræði vestrænnar alþjóðahyggju þar sem viðskipti og pólitík haldast í hendur.
TTIP-draumurinn varð úti með forsetakjöri Trump haustið 2016. Frjálslynda alþjóðavinstrið gekk af göflunum og sagði Pútín á bakvið valdatöku Trump. Vestræn alþjóðahyggja riðaði til falls. Biden kom fjórum árum síðar til bjargar og dælir vopnum og peningum til Úkraínumanna. Lokatilraun að blása lífi í hugmyndafræði á fallandi fæti.
Selenskí forseti Úkraínu er næmur á vestræna orðræðu. Hann var aufúsugestur á flestum þjóðþingum vesturlanda, m.a. alþingi Íslendinga, þar sem hann á fjarfundi útskýrði að stríðið á steppum Garðaríkis væri í þágu vestrænna hagsmuna. Les: vestrænnar alþjóðahyggju. Nú fer Selenski halloka. Evrópa verður fátæk, segir forsetinn.
Laukrétt hjá Selenskí.
Næst frægasta setning úr bók Clausewitz segir að andstæðingar í stríði hafi sama markmið, að brjóta mótherjann undir sinn vilja. Um það snýst Úkraínustríðið. Vesturlönd með Úkraínu sem verkfæri vilja beygja Pútín og Rússa undir vald sitt. Pútín vill brjóta á bak aftur óseðjandi vestræna löngun í ódýra hrávöru Bjarmalands.
Clausewitz lærði sín fræði á vígvellinum. Þjóðverjinn gekk í raðir Rússa í stríðinu við Napoleón og Frakka. Viljastyrkur, sagði sá þýski, skiptir sköpum í stríði. Gildir enn.
Hvor stríðsaðilinn er tilbúinn að taka á sig þær þjáningar sem þarf til að sigra? Æ fleiri deyja á vígvellinum og margir örkumlast. Tæknin er nýtísku en mannfórnin ævaforn. Stríð afklæðir manninn siðmenningu. Vestræn alþjóðahyggja er sum sé hápunktur siðmenningarinnar.
Fátækt beitt sem vopni gegn Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mikið rétt. Rússinn segir nú að stríðið leysist við samningaborðið skv. nýjustu fréttum. Eitthvað gengur þá á á vígvellinum.
En hvað sérð þú fyrir þér komi í staðinn fyrir glópalismann/alþjóðahyggjuna (alþjóðahyggja innifelur í sér alþjóðaviðskipti og -samskipti). Ekki lokast heimurinn og álfur einangrast eins og fyrir 1500?
Birgir Loftsson, 5.9.2022 kl. 10:12
Öld Vestursins er að syngja sitt síðasta. The Great Resett (WEF) er krampakennd tilraun til að halda í það sem hinir ofurríku hafa núþegar sölsað undir sig. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á nýsköpun og hugviti þá ættu menn að huga að því núna. Því nú hefst samkeppnin við þann hluta heimsins sem hingað til hefur skaffað okkur hráefnin. Nú ætla hann að nýta þau sjálfur og selja okkur á því verði sem gagnast þeim best.
Við eigum fisk, fallegt land, orku og vel menntaða þjóð. Brettum upp ermarnar.
Ragnhildur Kolka, 5.9.2022 kl. 10:59
Hér fær maður sanna sýn á tilurð og upphaf Úkraínu stríðsins enginn er þess megnugur að rengja þau. Fréttir vestrænna-(þ.á m.RÚV.)-ríkja voru allt að því samhljóða,en vonir glæðast um að Rúv verði aftur alíslenskt fyrirtæki.
Helga Kristjánsdóttir, 5.9.2022 kl. 16:17
Allir læri að heimurinn er einhverskonar tölvuleikur,... - jonasg-egi.blog.is
Mín túlkun.
Reynt að eyðileggja framleiðslukerfið. flutningakerfið, ríkis kerfið, sjálfstæðar þjóðir, allt sem hægt er til að koma megi á heims stjórn.
Fyrsta.
Það er ekki hægt að fá þjóðirnar sem hafa komið á góðu skipulagi og eru þá sjálfbjarga, til að framselja sjálfstæðið, það að ráða sínum málefnum, nema að flytja aðra menningu til landana og reyna að koma öllu í bál og brand.
000
Svona búum við til skort og hungur til að öllum líði sem verst og samþykkjum þá allt, svo sem heimsstjórn.
000
Annað.
Til að hægt væri að eyðileggja orkuframleiðsluna var okkur sagt að lífsloftið, kolefnið væri mengun og að við yrðum að hætta að búa til lífsloft, kolefni.
Einnig að við yrðum að greiða kolefnis, lífslofts skatt til að yfirstjórnin fengi möguleika á skattlagningu.
frh. https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2282169/
Egilsstaðir, 06.09.2022 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 6.9.2022 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.