Föstudagur, 26. ágúst 2022
Stjórn RÚV og siðareglur sakamanna
Síðasti fundur stjórnar RÚV var haldinn í mars, skv. heimasíðu. Að jafnaði fundar stjórnin tvisvar í mánuði, einu sinni í mánuði yfir sumarið. Feimni stjórnar RÚV að funda tengist lögreglurannsókn, RSK-sakamálinu, þar sem bæði núverandi og fyrrverandi fréttamenn stofnunarinnar eru sakborningar.
Fundurinn í mars var afgreiðslufundur. Aftur kom RSK-sakamálið fyrir á fundi stjórnar RÚV þann 23. febrúar. Viku áður var upplýst að sakborningar væru starfsmenn RÚV. Í fundargerðinni er ein setning, um að RSK-sakamálið hafi verið ,,rætt".
Í næstu efnisgrein fundargerðarinnar frá 23. febrúar segir að í mars kynni útvarpsstjóri endurskoðaðar siðareglur. Álíka vel fer á siðareglum á Glæpaleiti og að nefna snöru í hengds manns húsi.
RÚV hélt aðalfund í apríl. Í frásögn á heimasíðu ríkisfjölmiðilsins er ekki stakt orð um siðareglur. Ekki er heldur eytt orðum á þau nýmæli að stofnunin hýsi sakborninga.
En viti menn. Á miðju sumri, og án þess að kynna stjórn RÚV, að því er best verður séð, leggur útvarpsstjóri fram siðareglur dagsettar 13. júní 2022.
Loksins, loksins þegar útvarpsstjóri opinberar siðareglurnar vantar eftirfarandi ákvæði: starfsmenn RÚV stundi ekki, og taki ekki þátt í, a. líkamsárás með byrlun b. stafrænu kynferðisofbeldi c. gagnastuldi og d. friðhelgisbrotum á einkalífi fólks.
Siðareglur stofnunar, sem ekki tekur á siðlausum starfsmönnum sannanlega nátengdum lögbrotum, samanber sakborninga, eru siðareglur sakamanna.
Starfsmenn RÚV flýja réttvísina, fréttastofan er eins og aparnir þrír; sér hvorki né heyrir og má ekki mæla; útvarpsstjóri skrifar siðareglur með sakborninga sér við hlið.
Engin furða að stjórn RÚV fundi ekki. Enginn fundur, engin pínleg þögn um yfirvofandi ákærur.
Siðrof umlykur Efstaleiti.
Athugasemdir
Og svo var útvarpsstjóri einu sinni
laganna vörður.
Hvað breyttist hjá honum..??
Leggja þessa stofnun niður sem fyrst.
Klafi á þjóðfélaginu sem við erum skylduð til
að borga og flestum langar ekki til.
Sigurður Kristján Hjaltested, 26.8.2022 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.