Miðvikudagur, 6. júlí 2022
Boris: Brexit, loftslag og Úkraína
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands riðar til falls. Hann fékk kjör sem formaður Íhaldsflokksins, og þar með forsætisráðherra, til að framfylgja úrsögn Bretlands úr ESB, Brexit, sem fyrirrennara hans, Theresu May, mistókst.
Valdamenn í lýðræðisríkjum halda völdum eða tapa ef þeir hafa á hreinu stóru pólitísku staðreyndirnar. Smærri atriðin eru hælbítar, gera mein aðeins ef menn eru haltir fyrir.
Stórum pólitískum staðreyndum má skipta í tvo flokka, umræðustaðreyndir og hráar staðreyndir.
Umræðustaðreyndir eru afleiðingar pólitískrar umræðu, s.s. að breskur þjóðarvilji stóð til að ganga úr ESB; íslenskur þjóðarvilji er að ganga ekki ESB á hönd. Finnskur og sænskur þjóðarvilji er að ganga í Nató. Eðli málsins samkvæmt geta umræðustaðreyndir breyst með litlum fyrirvara. Innrás Rússa í Úkraínu bjó til finnskan og sænskan þjóðarvilja að ganga í Nató. Umræðustaðreyndir eru almannavilji hverju sinni. Snjallir stjórnmálamenn eru læsir á vilja almennings.
Hráar staðreyndir eru, ólíkt umræðustaðreyndum, með fótfestu í veruleikanum óháð vilja, smekk eða óskhyggju.
Valdaferill Borisar komst á flug eftir að hann veðjaði á stóra pólitíska umræðustaðreynd, Brexit. Framkvæmum Brexit, Get Brexit done, var slagorðið.
Eftir valdatöku lagði Boris í tvær stöðutökur gagnvart stórum pólitískum staðreyndum, sem byggja á hráum staðreyndum (ekki óskhyggju, vilja eða smekk). Sú fyrri að loftslag jarðar sé manngert og hin seinni að Úkraína gæti sigrað Rússa.
Eins og menn með eitthvað á milli eyrnanna vita er stöðutaka Borisar kolröng. Veðurfar jarðar er náttúrulegt en ekki manngert. Úkraína getur ekki sigrað Rússa á vígvellinum.
Sá sem ekki kann skil á umræðustaðreyndum annars vegar og hins vegar hráum staðreyndum, og eðlismun þeirra, á ekki erindi til æðstu metorða. Veruleikinn afhjúpar slíka menn, sýnir þá úr tengslum við staðreyndir. Hælbítarnir eru óðara mættir og narta í haltrandi forystumann.
Í orði kveðnu er það partístand á tíma kófs og þuklandi þingmaður Íhaldsflokksins sem grafa undan forsætisráðherra Bretlands. En í grunninn er það dómgreindarbestur gagnvart stórum pólitískum staðreyndum er fellir Boris Johnson.
Tveir breskir ráðherrar sögðu af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Líkræðurnar fóru fram í þætti Mark Stein á GB stöðinni í gær. Menn eru ekkert að tvínóna við hlutina þar.
Ragnhildur Kolka, 6.7.2022 kl. 08:19
Hver segir að loftslag jarðar sé manngert?
Ég hef engan séð halda því fram. Hins vegar hefur maðurinn mikil áhrif á loftslagið, en það er allt annað mál.
Brexit voru stór mistök, en þau voru víst ekki Boris að kenna.
Hörður Þormar, 6.7.2022 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.