Þriðjudagur, 28. júní 2022
Nýkristni, fóstureyðingar: tilgáta um heift
Fóstureyðingar eru pólitískt hitamál í Bandaríkjunum af trúarlegum ástæðum öðrum fremur. Guðs útvalda þjóð á rætur í púrítisma sem tekur mannhelgi alvarlega. Hæstiréttur sneri við úrskurði um rétt kvenna til fóstureyðinga frá 1973, sem var tími hippa, frjálsra ásta, eiturlyfja og andófs gegn feðraveldinu.
Bann við fóstureyðingum er kristin hugmynd. Rómverjar höfðu sérstaka öskuhauga fyrir óæskilega nýbura. Í íslenskri heiðni tíðkaðist útburður barna. Eftir kristnitöku lagðist sá siður af.
Kristin mannhelgi er undirstaða vestrænnar stjórnmálamenningar. Í deilunni um fóstureyðingar takast á um rétt konu yfir líkama sínum annars vegar og hins vegar rétt fósturs til lífs.
Eftir seinna stríð dofnuðu kristin gildi samtímis sem veraldleg mannréttindi fengu meira vægi. Veraldleg mannréttindi hvíla á lagabókstafnum einum saman, eru aðskilin frá trúarkenningunni. Mannasetningum má breyta, það leiðir af sjálfu sér. Réttindi sem styðjast við trú, t.d. kristin mannhelgi, eru aftur með innbyggðri seiglu og verður ekki auðveldlega kastað fyrir róða.
Úrskurður hæstaréttar vestan hafs snýst formlega um að fylkin sem mynda Bandaríkin ákveði sjálf staðbundin lög um fóstureyðingar. Í reynd er opnuð ný víglína í menningarstríði íhaldsmanna og frjálslyndra vinstrimanna.
Þótt bandaríska menningarstríðið hafi áhrif á Evrópu, það sást t.d. í Black Lives Matter, er harla ólíklegt að umræða um rétt kvenna þar vestra til fóstureyðinga skipti sem slík meginmáli í Evrópu. Engu að síður lögðust menn í gamla heiminum á árarnar og reru undir orðræðunni. Jafnvel á friðsæla Fróni kastast í kekki milli manna.
Nýkristni er pólitísk hugmyndafræði sem fléttar saman púrítanisma, félagslegri og efnahagslegri íhaldssemi, einstaklings- og þjóðhyggju. Í Bandaríkjunum eru menn kjörnir forsetar út á þessa hugmyndafræði, yngstu dæmin eru Reagan 1980 og Trump 2016.
Ákefð Evrópumanna að taka þátt í bandarísku umræðunni um fóstureyðingar stafar líklega af þeim grun að úrslit deilunnar hafi stórpólitísk áhrif á vesturlöndum almennt og langt út fyrir deiluefnið sjálft.
Tilfallandi spurn er hvort trúarlegir tímar séu á næsta leiti.
Sviptingar í bandarísku réttarkerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hæstiréttur bannaði ekki fóstureyðingar en sendi vissulega málið heim í hérað svo "fólkið" þar gæti tekið umræðuna (sem var tekin frá því með fyrri dómi hæstaréttar) og ákveðið sjálft framhaldið.
Það má bera þetta saman við að fjölmargir íslendingar vilja að Mannréttindadómstóllinn taki allar ákvarðanir fyrir fólkið heim í héraði og þannig sleppa við að þurfa sannfæra almúgan (lýðræði?) um hvað honum er fyrir bestu.
Grímur Kjartansson, 28.6.2022 kl. 10:16
Eftir því sem vísindunum fleygir fram, er stutt í það að læknar geti greint hvort fóstrið sé líklegt til að kjósa framsókn eða vinstri græna. Spurning hvað gerist ef hjón sem kjósa alltaf framsókn, fái þær fréttir að fóstrið sé harla ólíklegt til að kjósa sama og þau ?
Loncexter, 28.6.2022 kl. 17:23
Jú, I NY må framkvæma fóstureyðingu fram að síðustu viku fyrir fæðingu. Gott ef ekki kom tillaga um "fóstureyðingu" fram að 28 degi eftir fæðingu. Aldrei að vita nema móður snérist hugur og ástæðulaust að sitja uppi með krónan lengur en nauðsyn ber til. En nei, í NY eru þeir hógværir og ætla að sjá til hvort 38 viku meðganga dugi ekki til að kála króanum. Það má þá alltaf lagfæra lögin ef þörf er á.
Ragnhildur Kolka, 28.6.2022 kl. 19:53
"Kristur er uppfærður,
Kristur er sannarlega uppfærður".
Hörður Þormar, 28.6.2022 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.