Sunnudagur, 26. júní 2022
Víetnam, Írak og Úkraína, lærdómur ósigra
Stríð sem vinnast eru ekki ítarlega skilgreind og rædd (þótt þeim sé fagnað). Stríð sem tapast eru aftur brotin til mergjar og reynt að læra af mistökunum. Á mínu æviskeiði hafa Bandaríkin háð þrjú slík stríð. Í Víetnam, Írak og núna í Úkraínu.
Svona hefst fyrirlestur helsta raunsæismanns í bandarískum utanríkismálum, John Mearsheimer. Fyrirlesturinn var fluttur fyrir þrem vikum.
Mearsheimer rekur aðdraganda stríðsins sem hófst 24. febrúar. Hann vitnar í heimildir og dregur upp þá mynd að Bandaríkin beri meginábyrgð með þeirri stefnu að gera Úkraínu að Nató-ríki. Að kröfu Bandaríkjanna var gefin út yfirlýsing á leiðtogafundi Nató í Búkarest í Rúmeníu árið 2008 um að Úkraína og Georgía yrðu Nató-ríki.
Úkraína í Nató ógnar tilvist Rússlands. Í slíkri stöðu eru Rússlandi allar bjargir bannaðar, kæmi til ófriðar. Nató er hernaðarbandalag, ekki skátafélag eða saumaklúbbur.
Mearsheimer vísar á bug þeirri orðræðu að Pútín stefni á fyrri yfirráð keisara og kommúnista yfir Austur-Evrópu. Aldrei fram til upphafs Úkraínudeilunnar, með stjórnarbyltingunni 2014, var rætt um að Pútín stefndi að útþenslu.
Pútín varð leiðtogi Rússlands árið 2000. Í 14 ár var hann við völd og engin merki um yfirráðastefnu gagnvart Austur-Evrópu. Innrásin í Georgíu síðsumars 2008 var bein afleiðing af tilraunum að gera Georgíu að Nató-ríki. Allir með sæmilega dómgreind máttu vita að sama meginlögmál, séð frá sjónarhóli Rússa, gilti um Úkraínu og Georgíu. En vestrið, með Bandaríkin i forystu, taldi enga ástæðu að taka mark á viðvörun Kremlar.
Mearsheimer er ekki bjartsýnn á friðarsamninga, telur að stríðið geti varað í mánuði eða ár. Hættan á stigmögnun er yfirvofandi, að Nató-ríki dragist inn í átökin og kjarnorkuvopnum verði beitt.
Úkraínustríðið er skelfilegt stórslys, segir Mearsheimer. Sagan mun dæma Bandaríkin og fylgiríki hart fyrir fádæma heimskulega utanríkisstefnu.
Rússar ná tökum á Severódónetsk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Enn og aftur reynir Páll Vilhjálmsson að leggja fram yfirvegaða söguskýringu á raunverulegum ástæðum hernaðarins í Úkraníu og nú með tilvitnun í erindi bandaríks prófessors frá Chicago, sem ég vona að nái athygli einhverra þess stóra hóps ágætra borgara, sem hreinlega vagga sér líkt og í vímu við stríðstrumbuslátt hermangara og valdamikla erindreka þeirra sem því miður má jafnvel finna í okkar æðstu embættum - án þess að fjölyrða meira um þá skoðun mína.
Jónatan Karlsson, 26.6.2022 kl. 11:24
Það virðist hafa farið framhjá síðuhafa að stríðið í Úkraínu stendur enn yfir. Stríð getur ekki verið tapað fyrr en því er lokið.
Theódór Norðkvist, 26.6.2022 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.