Iðnaðarstríð í Úkraínu, vestrið tapar stórt

Árleg framleiðsla Bandaríkjanna af sprengikúlum fyrir stórskotalið er notuð í Úkraínu á hálfum mánuði af Rússum. Segi og skrifa: á tveim vikum nota Rússar sama magn af sprengjum í fallbyssur sínar og Bandaríkin framleiða á einu ári.

Upplýsingarnar koma fram í samantekt konunglegrar breskrar stofnunar á sviði varnarmála, RUSI. Stofnunin er aldagömul og virt. Einn stofnenda var Wellington, sá sem sigraði Napóleon í Waterloo. Það er ekki líklegt að RUSI birti fleipur.

Höfundur samantektarinnar, Alex Vershinin, segir vígvöllinn á úkraínsku sléttunum iðnaðarstríð. Sá sigrar sem framleiðir og flytur á víglínuna meiri búnað s.s. skotfæri og birgðir. Í upphafi stríðsins voru 200 þús. rússneskir hermenn á móti 250 þús. úkraínskum. Síðan hefur stjórnin í Kænugarði kvatt til vopna um 450 þús. hermenn. Samt eru Rússar á sigurbraut þrátt fyrir að vera til muna liðfærri.

Ástæðan er að Rússar eiga verkfærin, vopn og skotfæri. Í ofanálag eyðileggja Rússar birgðaflutninga með flugskeytum og flugvélaárásum. Úkraínumenn geta miklu síður hoggið skörð í birgðahald óvinarins. Atvinnuher Rússa slátrar Úkraínuher.

Úkraínumenn hafa viðurkennt að um helmingur af stórskotaliði þeirra í upphafi átaka í lok febrúar er ónýtur. Fáeinar fallbyssur og hreyfanleg eldflaugakerfi frá vesturlöndum breyta ekki neinu sem nemur. Sérfræðingar segja Rússa með tífalda og upp í tvítugfalda skotgetu í stórskotaliði og vígvallareldflaugum í samanburði við Úkraínuher. Stríðið á sléttum Garðaríkis er fyrst og fremst háð með þungavopnum. Flestir deyja án þess að sjá óvininn. Dauðinn kemur með fallbyssukúlu eða eldflaug.

Ekki er nokkur lifandi leið að Úkraínuher snúi taflinu sér í vil að óbreyttum forsendum. 

Það er ábyrgðarhluti af vestrænu stjórnmálaelítunni og fjölmiðlum á þeirra vegum að halda þeirri hugmynd á lofti að Úkraína geti sigrað. Það eru einfaldlega ekki til byssur og skotfæri á vesturlöndum til að standast Rússum snúning. Úkraínskir hermenn eru fallbyssufóður, deyja í fullkomnu tilgangsleysi í gjörtöpuðu stríði.

Á sléttum Garðaríkis taka heimsmálin stakkaskiptum. Þegar lærdómurinn af tapinu sækir vesturlönd heim verður það sársaukafullt. Rússar niðurlægja vestrið í staðbundnum átökum. Kínverjar standa álengdar. Heimurinn allur er undir og horfurnar eru slæmar fyrir vesturlönd. 


mbl.is Segir Rússa eiga heitt sumar í vændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það kom flatt uppá Bandaríkjamenn, þegar Wuhan veiran birtist, að allt penicillin og sóttvarnavarningur þeirra var framleiddur í Kina. Sama á eftir að koma í ljós með hergøgn Bandaríkjahers. BNA er ekki lengur sjálfu sér nógt um varnir, þau hafa utvistað nær allri framleiðslu sem áður stóð undir  velsæld þeirra og eru því nú á brauðfótum. Ed risavaxnar skuldir. Verði átök milli BNA og Kína í framtíðinni gæti orðið dálítið vandræðalegt þurfi þau að þurfa að biðja Kína að lána sér byssukúlur til halda leiknum afram. 

Ragnhildur Kolka, 24.6.2022 kl. 10:33

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já en Páll, þú verður að athuga að við erum með vindmyllur!

Við erum líka með Guðlaug Þór, Veðreisn, Vinstri græna, karla í konufötum, kellingar með hring í nefi og Joe corpus dementis Biden-Bresnjev.

Þess utan erum við líka með Evrópusambandið maður! - sem gat ekki einu sinni skaffað bóluefni, né hvað þá heldur ráðið við fjármálakreppu og heldur nú á sér hita með rússnesku gasi og skorar núll á vísitölu þjóðargetu. Þannig fyrirbæri þarf ekki byssukúlur. Því er algjörlega sjálfhætt.

Svo erum við líka með sovéska fjölmiðla; árgerð Karl Marx.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 24.6.2022 kl. 14:37

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Stríð vinnst á langhlaupi, ekki til skamms tíma. BNA unnu allar orrustur í Víetnam og líka í Afganistan, en töpuðu báðum styrjöldunum...hvernig? Sá sem fær fleiri vopn, til lengri tíma vinnur, nema pólitík grípi inn í. Mörg stríð hafa tapast pólitískt, ekki hernaðarlega. Spyrjum að leikslokum....

Birgir Loftsson, 24.6.2022 kl. 18:23

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

"Nema pólitík grípi inn í"?-Er það ekki sem frelsarinn segir: "hvert það ríki sem sem er sjálfu sér sundurþykkt leggst i auðn og hver sú borg eða heimili sem er sjálfu ser sundurþykkt fær ekki staðist". Guð blessi Ísland.

Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2022 kl. 01:06

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mikið er svartnættið hjá síðuhöfundi, allt virðist vera að fara til andskotans á Vesturlöndum, af því að þau standa uppi í hárinu á snarbrjáluðum einræðisherra, morðingja og hryðjuverkamanni. Skeit Ursula von der Leyen í Cheeriosið hjá honum?

Páll er búinn að vera að tala sigur yfir hryðjuverkamanninn í marga mánuði núna, en ennþá stendur stríðið og þrátt fyrir bakslag í Donbas, er staðan ekki eins svört og mætti ætla af pistli Páls.

Ég gef lítið fyrir harðstjóraklúbb BRICS, þar sem Putin er að gera sig að einhverjum foringja þróunarlanda og mannréttindabrjóta, enda Rússland þróunarland að mörgu leyti, 300 árum á eftir tímanum á mörgum sviðum. Ljóta samsuðan, en svekktastur er ég með Indland að vilja ekki taka stöðu með frelsi og lýðræði, eftir allt sem Vesturlönd hafa gert fyrir þá.

Að lokum, bendi á nýlegan pistil Bjarna Jónssonar sem virðist vera eini maðurinn sem skrifar af viti um þessi mál. Hið illa mun tapa að lokum, þó það taki einhver ár og bloggarar á Íslandi séu að tala sigur yfir illmennin.

Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins

Theódór Norðkvist, 25.6.2022 kl. 08:44

6 Smámynd: Jónatan Karlsson

Venju samkvæmt rökföst og djúp skilgreining frá Páli á ástandinu á sléttum Garðaríkis, í fylgd frábærra athugasemda þeirra Ragnhildar, Gunnars, Birgis og Helgu. Venju samkvæmt slær ámótlegt útburðarvæl Theódórs þó botninn í herlegheitinn.

Jónatan Karlsson, 25.6.2022 kl. 09:20

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka þér fyrir hrósið, Jónatan.laughing

Theódór Norðkvist, 25.6.2022 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband