Föstudagur, 17. júní 2022
Lýðveldið, Framsókn og 16. júlí
Við fögnum lýðveldinu 17. júní. Í dag er það 78 ára. Sumir vinstrimenn vildu ekki stofna til þess 1944. Ekki frekar en þeir vildu fullveldi 1918. Þeim leið betur sem Stór-Dönum en Íslendingum.
Í dag eru vinstrimenn á flótta. Helstu tíðindin á vígaslóðum stjórnmálanna er sókn Framsóknar. Þríeykið sem skipar herráðið, Sigurður Ingi, Lilja og Ásmundur Einar, skrifar grein í Morgunblaðið um samhengi fullveldis og Framsóknar.
Síðasta stórárás vinstrimanna á lýðveldið var gerð 16. júlí 2009 er sitjandi ríkisstjórn Jóhönnu Sig, eina hreina vinstristjórn sögunnar, fékk samþykkta ESB-umsókn á alþingi Íslendinga.
16. júlí er ofbeldisdagur í íslenskri sögu. Þann dag 1627 gekk óþokkalýður á land í Vestmannaeyjum, á Ræningjatanga, og drap, brenndi og hneppti fólk í þrældóm. Ekki voru það fylgismenn Marx heldur Múhameðs er voru þar að verki.
Það er framsóknarlegt að hafa fullan fyrirvara á boðskap útlendra spámanna. Síðast þegar sæmilega tókst til, á alþingi árið 1000, var sérstakur gaumur að gefinn að því hvort hinn nýi siður, kristni, félli sæmilega að viðurkenndum háttum landsmanna, heiðni.
Sigurður Ingi þess tíma, kallaður Þorgeir Ljósvetningagoði, fann þá málamiðlun að menn skyldu taka kristni formsins vegna en máttu bera heiðni í hjarta sér og stunda heima fyrir blót, útburð og hrossakjötsát.
Engri framsóknarmennsku var til að dreifa rúmu hálfu árþúsundi síðar, þegar landsmenn skiptu úr einni kristni í aðra. Siðaskiptin voru djöfulgangur. Fyrsta frjálsræðishetjan, Jón Arason og synir hans Björn og Ari, allt framsóknarmenn, voru teknir af lífi án dóms og laga af stór-dönsku leiguþýi.
Eftir fall feðganna var fátt um innlendar varnir gegn alþjóðahyggju nýaldar. Vinstrisinnaðar háskóladeildir í Evrópu kenndu að galdrar væru helsta meinsemd mannanna, líkt og amerískar háskóladeildir kenna í dag að kynin séu ýmist þrjú, fimm eða seytján. Ósköpin bárust að strönd ísa kalda lands með svokölluðum menntamönnum, auðvitað. Þar eð engir framsóknarmenn voru til andmæla létu 25 alþýðufræðarar lífið, flestir á báli. Var sprekið þó af skornum skammti í skóglausu landi. Útlenda trúarspekin krafðist aftur lífláts með brennslu.
Allt er þetta saga sem endurtekur sig að breyttu breytanda. Lærdómurinn er að stíga skal varlega til jarðar er spámenn hefja upp raust sína. Sannleikurinn liggur í litlu atriðunum, í hversdagslífinu. Framsókn er þar á heimavelli.
Gleðilega þjóðhátíð, bæði framsóknarmenn og aðrir.
Þjóðhátíðardegi fagnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sárt að sjá að forusta Sjálfstæðisflokksins tekur ekki þátt í hátíðarhöldunum á síðum Moggans í dag. Aðeins Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður,tekur að sér að minnast þjóðhátíðardagsins. Og honum var hafnað af "sjálfstæðissinnunum" í sinni sveit.
Ekki björgulegt það.
Ragnhildur Kolka, 17.6.2022 kl. 11:06
Fróðlegar eru þær upplýsingar hér að ofan að vinstri menn hafi verið á móti því að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki 1918 og síðan líka á móti því að að Ísland yrði lýðveldi. Einnig þær upplýsingar að öll aðildarríki ESB hafi fórnað lýðveldi fyrir aðild að ESB.
Ómar Ragnarsson, 17.6.2022 kl. 14:16
Satt er það, svokallaðir lögskilnaðarmenn vildu fresta stofnun lýðveldis fram yfir stríðslok, var það helst af tillitssemi við Dani sem liðu undir hernámi Þjóðverja. Ekki ætla ég að þeir hafi verið mjög róttækir vinstrimenn, kannski kratar eða í vinstri framsókn. Reyndar átti fyrir sumum þeirra að liggja að verða forsetar lýðveldisins.
Hins vegar voru sósialistar og "kommar" undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar harðir fylgendur lýðveldisstofnunar.
Hörður Þormar, 17.6.2022 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.