Ég er ópólitískur, kýs Framsókn

Fyrir skemmstu var óhugsandi að framsóknarmaður yrði borgarstjóri. Flokkurinn var í útrýmingarhættu á höfuðborgarsvæðinu. En nú verður frammari borgarstjóri, að vísu eftir tvö ár.

Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri stöðu að ópólitískir kusu flokkinn. Framsókn er óðum að nálgast það þægilega fylgispólitíska umhverfi. Þingkosningar, kosningar til sveitarstjóra og kannanir segja þá sögu. Framsókn er við 17 prósent fylgi. XD hefur enn 3-5 prósentustiga forskot sem fer minnkandi.

Framsókn er ekki hugmyndaflokkur, var það síðast á dögum Jónasar frá Hriflu fyrir miðja síðustu öld. (Valdatíð Sigmundar Davíðs undantekning). Flokkurinn er samkvæmt hefð tilbúinn að vinna til hægri og vinstri. Ópólitíska miðjan.

,,Er ekki best að kjósa Framsókn?" er risminna en ,,stétt með stétt". En við lifum ekki rismikla tíma. Velmegun og óánægja haldast í hendur. Almenningur er feitur þjónn í leit að þægilegum húsbónda.  

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fundið fjölina sína frá hruni. Víst er hann enn stærstur flokka, en nú má ekki miklu muna. Framsókn nartar í hælana.

Sjálfstæðisflokkurinn var síðast hugmyndaflokkur þegar Davíð Oddsson var í forsvari. Hægriflokkur með víða skírskotun. Á seinni árum eru tilburðir flokksins að koma til móts við andstæðinga sína og apa eftir frjálslyndri vinstritísku. Ekki hefur dregið úr þeirri viðleitni í ríkisstjórnarsamstarfi með Vinstri grænum.

Á þeim tíma þegar ópólitískir kusu Sjálfstæðisflokkinn mátti ganga að vísri borgaralegri hugmyndafræði, bæði í efnahagsmálum og menningu. Í dag er allt heldur ógreinilegra.

Flokknum til afsökunar voru skýrari línur á milli hægri og vinstri um aldamótin, að ekki sé talað um tímabilið kennt við kalda stríðið. Evrópskir hægriflokkar eru ekki í mikið betri stöðu. Breski Íhaldsflokkurinn, til dæmis, tók upp Grétufræði í loftslagsmálum til að þóknast vinstritísku. Hugsunin virðist vera að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.

Framsókn iðkar hagnýt stjórnmál, stendur á gömlum merg, elstur starfandi flokka. Kjósendur telja sig ekki taka áhættu að greiða Framsókn atkvæði sitt.

Aukið vægi Framsóknar má túlka þannig að í hugmyndabaráttunni sé runninn upp úrvinnslutími. Hvað virkar? er spurt. Kannski virkar Framsókn. Kannski ekki.  

 


mbl.is Dagur og Einar skipta með sér borgarstjórastólnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband