Ást og hatur, konur og menn

Setningin ,,ég hata menn" er saklausari en setningin ,,ég hata konur". 

Tvíkynja heimur býr að þeirri staðreynd að karlar eru með meiri líkamsmassa en konur. Þetta er ekki algilt en fer nærri því, tiltölulega fáar konur hafa líkamsstyrk karla.

Setningarnar að ofan eru með innbyggða vísireglu. Gefið er að andstætt kyn staðhæfi hatur á hinu kyninu. Annars væri um sjálfshatur að ræða. Það er önnur umræða.

Kona sem segist hata menn lýsir vanmætti. Karl er staðhæfir það sama um konur ógnar. Það er saklausara að lýsa vanmætti en að ógna.

Nú kynni einhver að grípa til þeirra andmæla að kona í valdastöðu yfir karli, t.d. kvenkyns forstjóri gagnvart karlkyns sendli, gæti valdið miska án líkamlegra yfirburða. Það er rétt svo langt sem það nær. En þess er að geta að yfirlýsingin ,,ég hata karla/konur" er aðeins áhugaverð setningarfræðilega, ekki hvað merkingu varðar. Enginn getur hatað hálft mannkynið.

Hatur er frumhvöt, líkt og ást. Til að hata/elska þarf persónuleg tengsl, samfélag. Enginn er með persónuleg tengsl við hálft mannkyn. Það er óhlutbundin stærð, ekki samfélag.

Sögur af samfélagi varpa ljósi á samspil ástar og haturs. Kappar eins og Gunnar á Hliðarenda urðu deigt járn í höndum kvenna eins Hallgerðar. Þeirra samlíf var girndarráð. Guðrún Þórðardóttir atti ástmönnum sínum saman. Önnur Guðrún í annarri sögu sagði á gamals aldri að hún hefði verið þeim verst er hún unni mest. Þórunn dóttir Jóns biskups Arasonar hefndi föður síns, sendi norðlenska vermenn að drepa danska yfirvaldið fyrir sunnan. Þórunn bjó á Grund, var gift Ísleifi sýslumanni. Fannst henni hann duglaus í hjónasænginni og orti:

Í Eyjafirði upp á Grund
á þeim garði fríða
þar hefir bóndi búið um stund
sem börn kann eigi að smíða.

Engin ofangreindra kvenna hataði karla, bara suma, sem þær höfðu áður elskað. Karlar hata ekki konur, þá myndu þeir hata mæður sínar.

Setningarnar í fyrstu efnisgrein bloggsins koma ekki heim og saman við reynslu nokkurs manns eða konu. Jú, kannski Kobba kviðristu eða álíka fyrirbæra.

Ástæðan fyrir umræðunni í meðfylgjandi frétt er að sumir hafa, viljandi eða óviljandi, gleymt að við búum í tvíkynja heimi þar sem andstyggð og ástúð eru tvær hliðar á sömu myntinni.

Setningin ,,ég hata/elska sjöunda kynið" er marklaus.


mbl.is Kynjamisrétti á Twitch olli fjaðrafoki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband