Stefán fórnaði Rakel, en hélt Þóru - hvers vegna?

Í apríl á síðasta ári komst á samband milli X og RÚV. Samið var um að X gerði Pál skipstjóra Steingrímsson óvígan, stæli af honum snjallsíma og lét í hendur RÚV sem myndi afrita innihaldið. X skilaði símanum eftir afritun. Pál skyldi ekki gruna að símanum hefði verið stolið. Því átti að bíða í rúmar tvær vikur með að birta efni úr gögnum Páls.

Með tveggja vikna seinkun á birtingu ynnist tvennt. Í fyrsta lagi myndi Páll nota símann á meðan og við það eyddust úr minni símans staðsetningargögn á meðan hann var í þjófa höndum. Í öðru lagi myndi Pál síður gruna að gögnin kæmu úr síma hans ef það liðu tvær vikur á milli meðvitundarleysis hans og birtingu frétta úr snjallsímanum.

X fékk lyfseðil á ávísun á sterk svefnlyf 14. apríl. Þau svefnlyf voru notuð til að leggja Pál að velli aðfaranótt 4. maí. Föstudaginn 30. apríl var Aðalsteinn Kjartansson fluttur af RÚV, þar sem hann vann undir Þóru Arnórsdóttur, og yfir á Stundina þar sem systir hans Ingibjörg er ritstjóri og eigandi. Ásamt Aðalsteini á Stundinni skyldi Þórður Snær á Kjarnanum að birta gögn Páls. Skipuleggjendur á RÚV vildu fá stóran fjölmiðlahvell þegar gögnin birtust. Þá væri betra að hafa tvo miðla með í ráðum. Ekkert skyldi birt á RÚV. Miðstöð glæpsins átti að vera stikkfrí.

Við tilræðið lenti Páll á gjörgæslu og var settur í öndunarvél. Eftir að hann komst til meðvitundar varð hann þess áskynja að átt hafði verið við símann. Skipstjórinn er vel læs á tæknileg atriði snjallsíma og hætti að nota símann til að upplýsingar um staðsetningu eyddust ekki.

Ekki síðar en 20. maí kl. 14:56 rennur upp fyrir Páli skipstjóra hvers kyns er þegar Þórður Snær hringir. Tíu mínútum síðar hringir Aðalsteinn. Erindi beggja var það sama, að tilkynna skipstjóranum að þeir ætluðu að segja fréttir af honum daginn eftir, hvort hann vildi gefa ,,komment." Aðalsteinn og Þórður Snær hlýddu skipunum frá Efstaleiti og fylgdu tímaáætlun. Snemma morguns daginn eftir birtust fréttirnar, samræmdar og ritstýrðar af Efstaleiti.

Hvorugur blaðamannanna áttaði sig á að þeir yrðu til lögreglurannsóknar vegna byrlunar og þjófnaðar í beinu framhaldi. RÚV hafði sagt þeim að planið væri pottþétt. Enginn kæmist að því hvernig Páli var byrlað og síma hans stolið. X átti að vera hlífiskjöldurinn. Á móti fékk X skjól og lagavernd sem ,,heimildarmaður." 

Enn er ekki upplýst hvernig samband komst á milli RÚV og X. Rakel Þorbergsdóttir sem var fréttastjóri RÚV og X eru skólafélagar. Þá er annar möguleiki. Lára V. Júlíusdóttir er lögmaður X. Vegna persónulegra mála var X í reglulegu sambandi við Láru síðast liðið vor. Og er raunar enn. Lára er öllum hnútum kunnug um hvernig skuli koma á sambandi milli hagaðila og fjölmiðla. Lára er innsti koppur í búri Samfylkingarinnar sem fyrrum trúnaðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá var hún bankaráðsformaður seðlabankans þegar atlaga bankans og RÚV að Samherja hófst 2012. Mögulega verður hún vitni í fyrirséðu dómsmáli.

Í byrjun nóvember var skyndilega tilkynnt að Rakel segði starfi sínu lausu. Á hinn bóginn er vitað að Þóra var kölluð í yfirheyrslu hjá lögreglu í byrjun október. Hún er núna sakborningur, Rakel sennilega einnig þótt ekki hafi það verið staðfest.

Ekki seinna en í október fékk Stefán Eiríksson útvarpsstjóri vitneskju um að lögreglan rannsakaði byrlun og gagnastuld og glæpaslóðin var rekin upp á Efstaleiti. Áður en Stefán losaði sig við Rakel 9. nóvember hefur hann átt samtöl við sitt fólk, sem tengdist málinu. Að minnsta kosti þrír starfsmenn voru kallaðir á teppið hjá útvarpsstjóra: Þóra, Rakel og Helgi Seljan.

Stefán lét Helga taka pokann sinn um áramót. En Þóra sat áfram. Og situr enn, sakborningurinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn. Hvers vegna gerði Stefán Þóru ekki að láta af störfum, líkt og Helga og Rakel? Er Þóra með slíkar pólitískar tengingar að útvarpsstjóri þorði ekki að víkja henni úr starfi? Eða sögðu þremenningarnir Stefáni ósatt um hvernig væri í pottinn búið? Liggja persónulegur ástæður að baki?

Stefán og Heiðar Örn fréttastjóri gáfu yfirlýsingu 20. febrúar, eftir að opinbert varð að Þóra er sakborningur. Þeir segja brýnt að fjölmiðlar geti tekið við ,,upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi... og er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin."

En RÚV fjallaði aldrei um stolin gögn úr síma Páls skipstjóra, það gerðu Kjarninn og Stundin. RÚV sá um að leggja á ráðin. Til að síminn kæmist í hendur RÚV þurfti fyrst að byrla og stela. Þóra Arnórsdóttir birti enga frétt, ekki eina einustu. Hún sat á Efstaleiti og kippti í spotta. Stefán og Heiðar Örn þurfa að svara einfaldri spurningu: er það hlutverk fjölmiðla að skipuleggja glæpi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góð spurning Páll.

Svo er það með siðferðið.??

Menn látnir fjúka fyrir viðurkenningu á hótunum,

en ekki glæp.!!

Held að öll blaðamanna stéttinn eins og leggur sig

ætti að hugsa sinn gang hvorum meginn línunnar

þeir vilja vera.

Trúverðugleiki fæst ekki með svona vinnubrögðum.

Þetta verður til þess að allur almenningur trúir

því, að frá ákveðnum fjölmiðlum og blaðamönnum,

séu bara "Fals fréttir"

Er það sem blaðamenn vilja.??

Afstaða er eina mögulega leiðin hjá þeim

til að teljast ekki ómarktækir með öllu.

Þögn er sama og samþykki.

Boltinn er hjá þeim.

Sigurður Kristján Hjaltested, 20.3.2022 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband