RSK-miðlar eru dómstóll fjölmiðla

Landsréttur úrskurðaði í vikunni að blaðamenn eru ekki undanþegnir í rannsókn lögreglu á ætluðum brotum á almennum hegningarlögum. Blaðamenn á þrem fjölmiðlum, RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK) eru sakborningar í lögreglurannsókn á byrlun og gagnastuldi þar sem Páll skipstjóri Steingrímsson er brotaþoli.

Fjölmiðlar líkt og stjórnmálaflokkar starfa á opinberum vettvangi og eru í þágu almannagæða. Bæði fjölmiðlar og stjórnmálaflokkar eru að stórum hluta fjármagnaðir með almannafé. Annað sameiginlegt fjölmiðlum og stjórnmálaflokkum er að þeir eru ráðandi afl í opinberri umræðu.

Það ætti að liggja í augum uppi að þegar starfslið fjölmiðla og stjórnmálaflokka, þ.e. blaðamenn og stjórnmálamenn, eru með stöðu sakbornings í sakamáli geta þeir ekki sinnt störfum sínum í þágu almannahagsmuna.

Þingmaður, til dæmis, sem væri með stöðu sakbornings í lögreglurannsókn gæti ekki haldið áfram þingstörfum. Það yrði einfaldlega ekki liðið. Ef þingmaðurinn bæri fyrir sig þinghelgi yrði hann einfaldlega þvingaður af samflokksmönnum sínum að taka pokann sinn - í það minnsta að víkja um stundar sakir. Ef sakamálið leiddi til sýknu ætti viðkomandi möguleika á endurkomu.

Tveir starfsmenn RÚV, Helgi Seljan og Rakel Þorbergsdóttir, viku á fyrri stigum lögreglurannsóknar á byrlun og gagnastuldi. Réttara sagt Rakel vék en Helgi einfaldlega skipti yfir á Stundina.

Áfram starfar Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum. Öll þrjú eru á leiðinni í skýrslutöku hjá lögreglunni sem sakborningar.

Samtímis sem RSK-miðlar halda hlífiskili yfir sínum blaðamönnum taka þeir þátt í opinberri atsókn að mannorði og atvinnu Frosta Logasonar sem ekki er sakborningur í máli er varðar brot á hegningarlögum. Frosti, samkvæmt frásögn RSK-miðla (einkum Stundarinnar), kom illa fram við fyrrum kærustu sína og hótaði að birta af henni nektarmyndir.

Eitt sakarefna í lögreglurannsókn á blaðamönnum RSK-miðla er einmitt að þeir höfðu undir höndum persónugögn, texta og myndir, af Páli skipstjóra og hótuðu að birta ef skipstjórinn drægi ekki tilbaka kæru um byrlun og gagnastuld.

Dómstóll fjölmiðla tekur æruna af Frosta, atvinnuna og setu í stjórn Blaðamannafélags Íslands. RSK-miðlar ráða ferðinni í dómstóli fjölmiðla. Formaður Blaðamannafélagsins er fréttamaður á RÚV og varaformaðurinn er - haldið ykkur fast - Aðalsteinn Kjartansson sakborningur.

RSK-miðlar úthluta sekt og sýknu í samfélaginu. Þeir sem starfa á RSK-miðlum eru friðhelgir, jafnvel þótt þeir brjóti landslög, en mönnum eins Frosta er hent miskunnarlaust undir strætisvagninn.

RSK-miðlar eru ríki í ríkinu. Eins og KGB forðum í sovétinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband