Pútín, sagan og Meley

Daginn fyrir allsherjarárás Rússa á Úkraínu spyr breskur dálkahöfundur hvort forseti Rússlands sé snillingur, brjálæðingur eða eitthvað þar á milli.

Persónur geta haft áhrif á sögulega framvindu; ef Churchill hefði samið frið við Hitler eftir uppgjöf Frakklands vorið 1940 væri saga Evrópu önnur en hún varð.

En persónur búa ekki til söguna. Hún verður til yfir kynslóðir, áratugi og árhundruð. Enginn einstaklingur nær lengri starfsævi en nemur tveim kynslóðum, um 60 ár. Það er dropi í söguhafið.

Annar misskilningur í umræðunni er að góðir menn skipti máli í alþjóðstjórnmálum. Almennt gildir um stjórnmálamenn að þeir sem eru mannvinir ná ekki árangri í pólitík. Sagan kennir okkur þetta. Nelson Mandela gæti verið undantekning frá reglunni og mögulega Ghandi. Annars má staðhæfa um stjórnmálamenn að þeir eru misgallaðir, svona eins og fólk flest.

Hvað er það þá sem skiptir máli í umræðunni um Úkraínudeiluna og er forsenda til að skilja hana? Jú, aðalatriðið er að skilja vald í alþjóðastjórnmálum.

Víkur nú sögunni til Meleyjar á dögum Pelópseyjarstríðsins á Eyjahafi á fimmtu öld fyrir Krist. Höfuðandstæðingar eru borgríkin Aþena og Sparta er hafa hvort um sig bandalög að baki sér. Aþenumenn eru með augastað á fámennu borgríki á Meley, sem er hlutlaust í deilu stórveldanna. Þeir senda óvígan her til eyjunnar. Áður en kemur til orustu eiga aþenskir herforingjar fund með höfðingjum Meleyinga.

Þúkýdídes skráði þessa atburði. Sigurjón Björnsson þýddi Sögu Pelópseyjarstríðsins. Lykilsetning í Meleyjarþætti, og í alþjóðastjórnmálum æ síðan, er þessi lögð í munn aþensku herforingjanna: ,,Þeir sterku fara eins langt og þeir geta, en þeir veiku láta eins mikið undan og nauðsyn krefur."

Rússum hefur, með réttu eða röngu, fundist þeir færast sífellt nær stöðu Meleyinga alla þessa öld. Bandaríska stórveldið, með Nató sem verkfæri, hefur sest að vesturlandamærum Rússlands. Úkraína var síðasta púslið hjá Bandaríkjunum og Nató. Með Úkraínu sem Natóríki væri Moskva orðin Meley. Vesturveldi gætu mælt af munni fram orðrétt sjónarmið aþensku herforingjanna: ,,Þeir sterku fara eins langt og þeir geta, en þeir veiku láta eins mikið undan og nauðsyn krefur." Ráðamenn í Kreml yrðu að sitja og standa eftir vilja Washington.

Síðasta tækifæri Rússa til að forða sér undan örlögum Meleyinga var að vera fyrri til og leggja undir sig Úkraínu. Sem þeir virðast ætla sér að gera.

Í megindráttum eru tveir möguleikar í framhaldinu. Að innrásin heppnist og Úkraína verði hernumin á skömmum tíma. Landið verði hérað í Rússlandi eins og það löngum var. Hinn möguleikinn er að stríð dragist á langinn með blóðsúthellingum og hryðjuverkum á báða bóga. 

Alþjóðasamfélagið kann Meleyjarþátt, þótt froðan í fjölmiðlum gefi annað til kynna. Alþjóðasamfélagið vonast eftir snöggu og skilvirku hernámi Úkraínu, þótt annað sé látið í veðri vaka. Ef Rússar klúðra innrásinni eru þeir komnir í enn verri stöðu en Meleyingar forðum.

Útkoma innrásarinnar ræðst af undirbúnigi. Næstu dagar leiða í ljós hvort undirbúningur Rússa hafi verið nægur. Hvort Pútín sé snillingur eða brjálaður er aukaatriði. Hann er, eins og fólk flest, einhvers staðar þar á milli. 

Hrátt vald og ómenguð saga skýrir framvindu Úkraínudeilunnar. Ekki einstaklingar.


mbl.is Pútín varar við hærra matvælaverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Þetta er rangt hjá þér. Þróun sögunnar er samspil einstaklinga (leiðtoga) og samfélaga. Einstaklingurinn getur mótað söguna, það höfum við fengið að kynnast af lestri mannkynssögunnar en sagan/samfélagið mótar einstaklinginn á móti.

Gott dæmi um þetta er Hitler sem mótaðist af fyrri heimsstyrjöld en skapaði sjálfur forsendur fyrir seinni heimsstyrjöld. Hitler bjó svo til stjórnmálaskörunginn Churchill sem sagði sjálfur að án Hitlers hefði hann bara verið áfram einmanna stríðsrödd ef Hitler hefði ekki farið af stað.

Einstaklingar eru ekki verkfæri samfélaga eins margir ætla, heldur einnig þeir sem halda á verkfærunum. Það skiptir máli hver er við stjórnvölinn, eins og sjá má af Joe Biden sem beinlínis hvetur til stríðs með veikleika merki sín.  

Birgir Loftsson, 24.2.2022 kl. 11:49

2 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Páll

Er það svo; réði Rússakeisar yfir allri Úkraínu. Það ekki mikill mannsbragur að því að kalla mann og annan lygara, en reiða svo fram lygaspuna Pútíns. Og svitna ekki einu sinni.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 24.2.2022 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband