Skömm og sönnun, hefnd og réttlæti

Viðkvæði þolenda kynferðisbrota er að þeir vilja ,,skila skömminni" þegar þeir upplýsa misgjörðina. 

Samfélagið sýnir þolanda kynferðisbrots samúð. Kynferðisbrot eru fordæmd. Við þeim eru viðurlög er taka mið af málsatvikum. Harðar er tekið á ofbeldisnauðgun en áreitni.

Skömmin sem þolendur lýsa er persónuleg. Ef þolandi kærir ekki kynferðisbrotið ber hann einn, og e.t.v. með sínum nánustu, þá tilfinningu að hafa verið sviptur reisn og verðleikum. Tvennt er í þeirri stöðu.

Í fyrsta lagi að bera harm sinn í hljóði og vinna úr sínum málum eftir bestu getu. Að kynferðisbrotum frátöldum ratar maðurinn í marga raun. Skilnaðir, sjúkdómar og ástvinamissir eru meðal áfalla sem fólk verður fyrir. Lífið fer mjúkum höndum um suma á meðan aðrir eru hart leiknir.

Í öðru lagi að bera harm sinn á götur og torg. Eftirspurn er eftir frásögnum af kynferðisbrotum, því meiri sem frásögnin er hrikalegri. Þolendur sem fara þessa leið mæta eyrum sem fýsir illt að heyra. Því lostugri verða hlustirnar sem meintur gerandi er nafntogaðri. Slík frásögn getur valdið hamfarabylgju samfélagsfjölmiðla. Eins og dæmin sanna.

Hængurinn er sá að frásögnin er einhliða og segir eðli málsins samkvæmt aðeins hálfa söguna. Það er engin sönnun, aðeins staðhæfing eins málsaðila um afbrot annars(eða annarra). Engin opinber rannsókn stendur að baki. Frásögnin segir meira um samfélagið en atvikið sjálft. Öðrum þræði er leikurinn líka til þess gerður, að hafa pólitísk áhrif á samfélagið. 

,,Að skila skömminni" er slíkum tilvikum hefnd fyrir meint ranglæti.

Réttlæti og ranglæti eru opinber gæði, ekki einkamál. Við viljum búa í réttlátu samfélagi og fordæmum ranglæti.

Skömm er aftur persónuleg tilfinning sem sumir hafa of mikið af en aðrir of lítið - t.d. þeir sem haga sér skammarlega og brjóta á öðrum.

Skömm getur aldrei orðið undirstaða réttlætis, aðeins mismunandi grófu ranglæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband