Veira, sóttvörn og þegnskapur

Í fyrstu bylgjum farsóttar sýndi þjóðin þegnskap og fylgdi forskrift yfirvalda í það stóra og heila. Sérþekking á eðli sjúkdómsins og áhrifum sóttvarna var af skornum skammti en kennivald þríeykisins var mikið og almenn sátt var um að fylgja þeim sóttvörnum sem haldbestar þóttu hverju sinni.

Áhöld eru um hvort nú standi yfir fjórða bylgja eða hvort við séum komin á þann stað að ,,læra að lifa með veirunni."

Hvort heldur sem er þá reynir meira á þolrif þegnskapar samtímis sem kennivaldið lætur á sjá. Þó væri ofsagt að segja samstöðuna brostna. Almennt vill fólk sóttvarnir og að yfirvöld sinni lýðheilsu eftir því sem kostur er.

Það er snúið verkefni að ,,læra að lifa með veirunni." Það virðist fela í sér langtímaráðstafanir að halda smitum niðri án þess að fyrir liggi hvernig það skuli gert og hvert markmiðið ætti að vera. Sóttvarnaryfirvöld gáfu ekki út tilmæli um grímuskyldu í þessari umferð en verslanir og þjónustuaðilar settu óðra upp merki um að grímur skyldu settar upp á þeirra yfirráðasvæði. Nándarreglur, einn eða tveir metrar, eru einnig óljósar. Sprittnotkun þó síður.

Tölur um smit eru birtar daglega en það er ekki fyllilega skýrt hvað séu háar tölur og hve mikið er um alvarleg veikindi. Að lifa með veirunni felur í sér að á hverjum tíma sé smit í samfélaginu. Hvað er mikið og hvað lítið í því samhengi?

Þjóðin tók því vel að aflýsa stórhátíðarhelgi landsmanna. Áreiðanlega í þeirri von að skólahald hæfist með eðlilegum hætti um miðjan ágúst.

Svo er það þetta með landamærin, sem er sérstakt vandamál. Reglur um ferðalög koma bæði við kaunin á einstaklingum, sem vilja ferðast, og atvinnugrein sem treystir á ,,hráefni" - þ.e. að landið sé sem mest opið ferðamönnum.

Í sóttvörnum er engin ein heildarlausn til. Það þarf að velja skástu leiðirnar til að ná því marki að hér sé um það bil eðlilegt mannlíf undir óeðlilegum kringumstæðum. Ekki er einfalt að lifa eðlilega við óheilbrigðar aðstæður. En það er ekkert annað í boði en að reyna.

 

 


mbl.is Of margir greinast enn utan sóttkvíar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Of margir.er ekki okkar árlega með i talningunni?

Helga Kristjánsdóttir, 1.8.2021 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband