Sunnudagur, 18. júlí 2021
Hræsni, fíkn og ferðalög
Ferðalöngun er fíkn hliðstæð ofáti og alkahólisma, segir í bandarísku vinstriútgáfunni New Republic. Í könnun, sem vitnað er til, segir að meirihluti 18 til 35 ára aðspurðra vildu fremur sleppa kynlífi en ferðalögum.
Það sem verra er, segir í greininni, er að ferðalög bera ábyrgð á heilum átta prósentum af losun alls mannkyns á gróðurhúsalofttegundum. Fyrir þá sem trúa á loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ferðalög bannvara.
Þeir sem í einu orðinu segjast hafa áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda en kaupa sér engu að síður farmiða eru í mótsögn við sjálfa sig, eru hræsnarar. Þeir lifa tvöföldu lífi, þykjast góða fólkið en eru í raun fíklar í þjónustu myrkraaflanna.
Umræðan um heimsvá af völdum manngerðs veðurfars er, eins og sæmilega læsir vita, útbelgd af hræsni. Það má drepa tímann á sunnudagsmorgni við að sitja heima hjá sér, ferðast innanhúss, og skrifa um tvöfeldni mannlífsins.
Hraður viðsnúningur í ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki ótrúlegt að ferðalög valdi 8% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Það hefur líka verið bent á að 15 gámaskip losa jafnmikið CO2 og allir fólksbílar heimsins. Þetta held ég að flestir þeir sem berjast gegn "loftslagsvá", en eru kaupglaðir, verði að gera sér ljóst.
Það er mikil tæknileg áskorun um að takast á við þetta vandamál. Það er nú þegar byrjað á því og veldur kannski nýrri tæknibyltingu.
Vetnið, algengasta frumefnið á jörðinni, er mjög orkuríkt í fríu formi. En það er að langmestu leyti bundið sem vatn. Til þess að losa það þarf því mikla orku. Framleiðsla vetnis er ekki flókin, en vandamálið er að geyma það. Vonandi hillir undir að það leysist fyrr en síðar. Verður þá hægt að framleiða vetni alls staðar þar sem orka er fyrir hendi.
Þó að vetni hafi verið notað sem orkugjafi fyrir farartæki þá hefur það ekki verið vandræðalaust og er ekki fýsilegt fyrir flugvélar.
Nú er unnið að því að þróa aðferð til að framleiða fljótandi eldsneyti úr vetni og kolsýringi. (Kopernikus Projekt). Tekist hefur að framleiða olíu (e-fuel) sem er hreinni og betri heldur en olían frá arabísku furstunum. Ef þessi framleiðsla reynist hagkvæm, þá ætti jafnvel að verða hagkvæmara að framleiða "e-fuel" uppi á Hellisheiði eða Straumsvík heldur en að dæla kolsýringnum niður í jörðina með ærnum kostnaði.
Ekki veit ég hvenær þessi "olíuelexír" kemst á markað, en þangað til verða ferðaþyrstir loftslagsverndarar, sem ætla að vera sjálfum sér samkvæmir, að fara að dæmi "eftirlætisins okkar", Grétu Thunberg, og sigla út í heim undir "þöndum seglum".
Hörður Þormar, 18.7.2021 kl. 19:04
Stórt LIKE á pistilinn og athugasemdina.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.7.2021 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.