Miðvikudagur, 14. júlí 2021
Lögmaður, glæpur og tjáning
,,Mér finnst mér hafi verið nauðgað," gæti einhver sagt að loknu kynlífi. Viðkomandi hefur rétt á þeirri sannfæringu. Kynlíf er sjaldnast stundað eftir skráðri og samþykktri verklýsingu. Hvílubrögð eru með ýmsum hætti.
Aftur ef einhver segir opinberlega að nafngreindur einstaklingur hafi nauðgað sér horfir málið á annan veg. Nauðgun er alvarlegur glæpur.
Sá sem er sakaður um nauðgun, en telur sig ekki hafa framið glæpinn, á þann rétt að ákæra útskýri málavöxtu og eftir atvikum sé rannsökuð af óvilhöllum aðila. Reynist ákæran á rökum reist fer málið áfram til saksóknara og þaðan fyrir dóm séu málavextir þannig að meiri líkur en minni séu til sakfellingar. Í tilfelli nauðgunar er að jafnaði um að ræða þvingun, hótun eða ofbeldi. Dómar hafa einnig fallið þolanda í vil þegar hann gat hvorki samþykkt kynlíf né hafnað sakir svefndrunga eða ölvunar.
Lögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson skrifar grein um tíðrætt mál þessa dagana þar sem nafnlausar ásakanir eru hafðar í frammi um kynferðisbrot/nauðgun nafngreinds einstaklings. Í greininni er að finna þetta sjónarmið:
Þær saka tónlistarmanninn um kynferðisofbeldi. Þessar ásakanir eru settar fram í nafni tjáningarfrelsis, sem einnig er varið af stjórnarskrá þessa lands. Í 73. gr. hennar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. (undirstrikun pv)
Ég hef fullt frelsi til að hafa hvaða skoðun sem er á lögmanninum Gunnari Inga og tjá þær skoðanir á opinberum vettvangi. En ef ég hefði þá skoðun að Gunnar Ingi hafi framið lögbrot - hvaða lögbrot sem er - þarf ég að gera meira, sum sé rökstyðja skoðun mína. Gunnar Ingi, eins og allir aðrir, á þann rétt að ekki sé vegið að mannorði og æru með ,,skoðunum" og ,,sannfæringu". Í dómum er gerður skýr greinarmunur á skoðunum og staðhæfingu um staðreynd. Ásökun um glæp er staðhæfing um staðreynd.
Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. En ef einhver er þeirrar skoðunar og sannfæringar að glæpur hafi verið framinn af nafngreindum einstaklingi þarf að rökstyðja það og eftir atvikum færa fram sönnur á glæpnum.
Í mannlífinu háttar þannig að glæpir eru framdir sem ekki eru upplýstir og gerendur komast ekki undir manna hendur. Flestum þykir það skárri kostur en að saklausir séu dæmdir fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki. Þetta er munurinn á réttarríkinu og lögmálum frumskógarins.
Athugasemdir
Góður pistill sem ætti að fá alla þá sem hafa skoðun á málum sem þeir hafa engar forsendur fyrir til að hugsa sig um. En þó þykir mér ólíklegt að það gerist.
Við höfum þarna lögmann sem, ef ekki vegna hagsmuna, hefur myndað sér skoðun. Og við höfum frumkvöðul, sem af því bara, hefur myndað sér skoðun og er tilbúinn að standa við hana hver svo sem sannleikurinn er. Og svo eru það þúsundirnar sem alltaf eru tilbúnar að skrifa undir hvað sem er, því það er svo nauðsynlegt að hafa skoðun. Bara einhverja skoðun.
Ragnhildur Kolka, 15.7.2021 kl. 03:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.