RÚV, smjörflugan, ofbeldi og sigur

Smjörflugukenningin, stundum kennd við fiðrildi, segir að lítill atburður langt í burtu geti löngu seinna orðið stóratburður. Til dæmis að skordýr blaki væng í Kyrrahafi í maí og það verður stormur á Norður-Atlantshafi í september. 

Hádegis-RÚV segir okkur að ef England vinnur Ítalíu í kvöld verði meira ofbeldi. Sökudólgarnir eru fótbolti, þjóðarstolt, eitruð karlmennska og vímuefni.

Smjörflugukenning RÚV er töluvert önnur útlegging á úrslitaleiknum en hjá Douglas Murray sem segir fótbolta og þjóðarstolt prýðilegt mótefni gegn vænisýki vinstrimanna, ,,wokedom".

,,Þjóðarstolt minnir okkur á að fleira sameinar okkur en sundrar og tilfinningin er ekki bundin við fótboltavöllinn," skrifar Murray. Hann er Englendingur, eins og gefur að skilja.

Baldur Hermannsson, sem veit sitthvað um þjóðarstolt, fótbolta og karlmennsku (veit ekki með vímuefni) skrifar af sama tilefni

Í dag er stóra stundin, England gegn Ítalíu, hið háleita hvíta kaldræna Norður gegn funheitu svækjusömu Suðri, hið norræna stolt gegn suðrænni lævísi ...Í dag leggjum við til hliðar minningar um þorskastríð og hryðjuverkalög ... í dag höldum við allir sem einn með frændum okkar Tjöllum.

Þjóðarstolt er sem sagt ekki bundið við eina þjóð heldur flyst það á stærri menningarheima. Gefur auga leið; ef innrás yrði gerð frá Mars myndi mannkyn sameinast.

Smjörflugukenning RÚV um að ofbeldi vex ef eitt lið mætir öðru í fótboltaleik er álíka sönn og að grimmd fylgi siðmenningu. Í náttúrunni er engin grimmd. Þegar mávur gúffar í sig andarunga vestur á Nesi er hann ekki grimmur heldur svangur. Siðmenning býr til orðræðu um grimmd og ofbeldi til að kenna hvað er við hæfi og hvað ekki. Nokkuð fljótandi skil eru þar á milli. Murray, sem nefndur er hér að ofan, er hommi en nýtur virðingar sem pólitískur álitsgjafi. Fyrir hálfri öld hefði hann orðið að dylja kynhneigðina væri honum annt um virðingu sína.

Sigur sameinar og ýtir innbyrðis sundurþykkju sigurvegaranna til hliðar. Í kvikmyndinni Konungurinn, sýnd á Netflix, er sagt frá Frakklandsleiðangri Hinriks 5. Englandskonungs. Í næst síðustu senu viðurkennir ráðgjafi konungs að hafa með brögðum vélt Hinrik til innrásar í Frakkland. Vélabrögðin voru í þágu háleitara markmiðs, að sameina Englendinga og efla með þeim konungsást og virðingu fyrir yfirvaldi. Hinrik drepur ráðgjafa sinn. Í lokasenu kvikmyndarinnar biður Hinrik verðandi eiginkonu sína, dóttur Frakkakonungs, að lofa sér því einu að segja alltaf satt.

Verðandi eiginkona konungs játar. Í augnaráði hennar má lesa vangaveltur um hvaða útgáfu smjörflugukenningarinnar hún teldi að helst mætti kalla sannleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þjóðarleiðtogum hefur nú varla tekist að sameina þjóðin með stríði síðan Tatcher með sína Falklands klettadranga sem öllum var í raun sama um.JafnvlelTrump haf'i vit á að stofna ekki til átaka. Hugsanlega er það vegna tilkomu farsímanna og fljótlegt er að grafa upp hvort í raun séu nokkur eiturefnavopna að finna þó allar layniþjónustur fullyrði það. 
En ég ætla að styðja Englendinga einfaldlega vegna þess að Ítalir eru ruddar

Grímur Kjartansson, 11.7.2021 kl. 15:57

2 Smámynd: Hörður Þormar

Við þurfum ekki flögrandi fiðrildi til þess að breyta heiminum. Ein lítil sæðisfruma getur gert það með því að finna hið rétta egg.

Hörður Þormar, 11.7.2021 kl. 16:01

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það vill nú svo til að enska orðið butterfly merkir fiðrildi á íslensku. "Smjörfluga" er einkennilegt orðskrípi sem ber aðeins vott um mjög takmarkaða málakunnáttu.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.7.2021 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband