Laugardagur, 3. júlí 2021
Vinstri græn: hjáleigan sem varð höfuðból
Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða ,,hinn turninn" í íslenskum stjórnmálum. Tveggja turna módelið gerði ráð fyrir að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur kepptust um að leiða landsstjórnina.
Til vinstri við Samfylkingu skyldi vera hjáleigan Vinstri grænir, jaðarflokkur sem hirti óánægjufylgi frá höfuðbólinu og yrði þénug hækja með sína fimm til sjö þingmenn.
Vinstri grænir mælast núna þriðjungi stærri en Samfylking. Hvernig varð hjáleigan höfuðból? Hvers vegna féll Samfylkingarturninn?
Stutta svarið er að Vinstri grænir urðu mannasættir í íslenskum stjórnmálum en Samfylking flokkur uppþota, vantrausts og almennra leiðinda.
Samfylkingin varð turninn í landsstjórninni með kosningasigrinum 2009 og tók Vinstri græna með sér í Jóhönnustjórnina 2009-2013. Slagorð Samfylkingar var ,,ónýta Ísland". Pólitíkin hét ,,stétt gegn stétt"; landsbyggð gegn þéttbýli, launamenn gegn atvinnurekendum, góða fólkið gegn því vonda og svo framvegis. Ónýta Ísland þýddi að krónunni skyldi fargað, stjórnarskrá lýðveldisins sömuleiðis og fullveldið flutt til Brussel með ESB-aðild Íslands.
Þjóðin sagði álit sitt á Jóhönnustjórninni vorið 2013. Samfylkingin fór úr 30 prósent fylgi í 12,9% og Vinstri grænir féllu úr 20% í 10,9%.
Munurinn á höfuðbóli og hjáleigu vinstrimanna eftir kosningarnar 2013 er að Vinstri grænir drógu þann lærdóm að óvinafagnaður er ekki góð pólitík til lengdar. Samfylking, aftur, forhertist, gerði óformlegt bandalag við Pírata um að halda lífi í hugmyndafræðinni um ónýta Ísland. Hagsmunahópurinn á Efstaleiti varð áróðursmiðstöðin og framleiddi fréttaskáldskap er hæfði hugmyndafræðinni.
Hass-útgáfa Samfylkingar, Björt framtíð, fékk aðild að landsstjórninni með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn vetrarnótt í janúar 2017. Hún féll að hausti þegar RÚV spann samfylkingarspuna um að barnaníðingar ættu athvarf í Valhöll.
Haustið 2017 öxluðu Vinstri grænir ábyrgð, sögðu skilið við óreiðuna á höfuðbólinu, og mynduðu sitjandi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Í stað undirmála voru gerðar málamiðlanir. Heimtufrekja vék fyrir sanngirni. En, það sem mest var um vert, þá taldi stjórnarráðið ekki lengur Ísland ónýtt.
Þannig varð hjáleigan höfuðból.
Samfylking aldrei minni og Sósíalistar fengju mann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er bara ofur eðlilegt, Vinstri græn eru upp til hópa duglegt grasrótarfólk sem bjargar sér sjálft en í Samfylkingu eru letingjarnir og landeyðurnar sem vilja láta aðra sjá fyrir sér, eins og þú sýndir fram á sjálfur með samlíkingunni við söguna um litlu gulu hænuna.
kv. hrossabrestur
Hrossabrestur, 3.7.2021 kl. 12:05
Mjög góð greining.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.7.2021 kl. 13:50
Tek undir með Heimi.
Ekki bara góð greining, heldur líka þörf greining.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.7.2021 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.