Laugardagur, 19. júní 2021
Marx, Peterson og óþörfin að bjarga heiminum
Á legsteini Karl Marx í Highgate-kirkjugarðinum í London stendur: Hugsuðir hingað til hafa reynt að skilja heiminn, en punkturinn er að heiminum þarf að breyta.
Marx er meginhöfundur vinstristjórnmála síðustu 150 ára. Tilraunir til að breyta heiminum í hans anda eru margar. Sovétríkin fyrir hundrað árum og Austur-Evrópa eftir seinna stríð. Kúba, Kambódía og Venesúela eru dæmi frá síðustu áratugum. Eftirtekjan er ónýt samfélög og ótaldar milljónir glataðra mannslífa.
Áður en þú breytir heiminum skaltu tileinka þér nennu og sjálfsaga að taka til í herberginu þínu, segir samtímahugsuðurinn Jordan Peterson. Punkturinn er sá að hafi maður ekki stjórn á eigin lífi sé borin von að maður eigi erindi að bjarga heiminum.
Vinstrimenn sleppa óreiðunni í eigin lífi lausri á samfélagið. Í stað þess að axla ábyrgð á sjálfum sér - taka til í herberginu - krefjast vinstrimenn að heimurinn aðlagi sig persónulegri óreiðu fárra. Menningarstríðið á vesturlöndum í seinni tíð er langvinnt frekjukast fólks sem hefur ekki stjórn á eigin lífi.
Til að ná markmiðum sínum stofna vinstrimenn og frjálslyndir ótal félög, hvert með sína útgáfu af heimsbjörginni. Félagakraðakið er í sífelldri leit að sameiginlegri óvinaímynd til að samfylkja gegn. Stöðugar upphrópanir á félagsmiðlum um þennan eða hinn heimsósómann eru bænakvak friðlausra hópsála sem eru ekki í rónni nema í samfélagsófriði.
Heiminum þarf ekki að bjarga. Óreiðusálirnar ættu að taka sér taki og læra sjálfsbjörg. Við það eitt yrði heimurinn snöggtum betri.
Athugasemdir
Frábær pistill. Jordan Peterson rannsakaði hvers vegna svo margir aðhyllast vinstri þrátt fyrir óumflýjanlegar ömurlegar niðurstöður er að þetta lítur vel út á pappír. Hinn vestræni heimur er á hraðri vinstri niðurleið.
Kristinn Bjarnason, 19.6.2021 kl. 10:56
Ýmsir breyta heiminum án þess að ætla sér það. Þar má t.d. nefna enska náttúrufræðinginn, Charles Darwin. Með uppgötvunum sínum gjörbylti hann viðhorfi manna til sköpunarverksins.
En uppgötvanir hans urðu líka aflvaki kynþáttastefnunnar, án kenninga Darwins hefðu fasisminn og og nasisminn ekki orðið til.
Hörður Þormar, 19.6.2021 kl. 23:41
Snilldar pistill og svo sannur.
Sigurður Kristján Hjaltested, 20.6.2021 kl. 04:56
Mjög góður! gott að eg missti ekki af honum.
Helga Kristjánsdóttir, 20.6.2021 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.