Mánudagur, 17. maí 2021
Guðrún var væn og kurteis - ég trúi
Guðrún Þórðardóttir var ,,kvenna vænst og kurteisust," segir í Guðmundar sögu dýra. Hún átti bú eftir föður sinn og þótti bestur kostur jafnborinna kvenna.
Fyrst giftist Guðrún Símoni Þorvarðarsyni, vinsælum manni og hógværum. Guðrún undi sér ekki með Símoni, ,,fór stundum frá búinu en stundum heim." Símon drukknaði í sendiferð Guðrúnar.
Næst giftist Guðrún Hrafni Brandssyni. Guðrún ,,hljóp úr hvílu hina fyrstu nótt er Hrafn var inn leiddur." Guðrún eignast ástmann, Hákon Þórðarson frá Laufási.
Einn dag mælti Guðrún til Hákonar, kvaðst eigi vilja komur hans meðan Hrafn væri á lífi ,,en ger sem þér sýnist síðan."
Hákon lagði til Hrafns með spjóti. Guðrún bað Hrafn ekki vega á móti sem dó eftir þau orð að svöðusárin væru grunn en svikin særðu. Þórður, faðir Hákonar, vildi að Guðrún bætti að hálfu manngjöld eftir vígið þar eð hún lagði á ráðin. Guðrún neitaði og við það sat. Frændur Hákons og Þórðar bættu Hrafn.
Síðan fékk Hákon Guðrúnar og var við hana harður og kvað sér eigi skyldu það verða að hennar menn stæðu yfir höfuðsvörðum hans.
Ekki gekk það eftir. Hákon tók þátt í Önundarbrennu með frænda sínum, Guðmundi dýra. Í eftirmálum var sótt að Hákoni, bræðrum hans og vinum. Hákon og félagar gáfust upp og vildu flestir gefa honum grið. Hákon þótti mildur, kom t.d. í veg fyrir aftöku Ögmundar sneis er hafði fíflað móður hans. Kom þá til skjalanna Sigurður grikkur og bauðst til verksins.
Hákon svarar: ,,Það myndi ég helst kjósa því að frá þér er ég ómaklegastur þeirra manna er hér eru. Ég tók við þér félausum er þú komst út [þ.e. til Íslands] og veitti ég þér vist.En ég stóð þig þrisvar í hvílu hjá Guðrúnu konu minni."
Guðrún er ekki til frásagnar um hvað þeim Sigurði grikk fór á milli við hvílubrögðin. Ég trúi að Guðrún hafi verið leiksoppur vondra manna.
Athugasemdir
Eg held að hún hafi verið siðblind skepna
Halldór Jónsson, 17.5.2021 kl. 13:42
Mikil er trú þín maður.
Ragnhildur Kolka, 17.5.2021 kl. 14:07
Finnst þér hegðun hennar vera í lagi frú Kolka?
Halldór Jónsson, 17.5.2021 kl. 16:16
Ég held þú takir orð Páls full bókstaflega. Eins og ég sé það er hann að leika sér með nýjast afbrigðið af #metoo blótinu,þ.s. allir falla á kné og tjá trú sína.
Orðum mínum, hér að ofan, var beint til Páls í kaldhæðni.
Ragnhildur Kolka, 17.5.2021 kl. 23:25
Ekki er allt sem sýnist og það sem sést er ekki allt.
Páll Vilhjálmsson, 17.5.2021 kl. 23:28
Spaklega mælt Páll.
Ragnhildur Kolka, 18.5.2021 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.