Sunnudagur, 16. maí 2021
Skakki Samfylkingarturninn og uppgjör Blair
Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða ,,hinn" turninn í íslenskri pólitík. Sameinaðir vinstrimenn gáfu sér Sjálfstæðisflokkinn sem viðmið. Í fyrstu kosningunum eftir hrun virtist Samfylkingin ná markmiðinu, varð stóri turninn með 30 prósent fylgi.
En það reyndist misskilningur. Kjósendur skáru fylkinguna niður í 12,9% í þingkosningunum 2013. Þar mallar flokkurinn síðan og þarf að sætta sig við þá háðung að smælkið Vinstri grænir er stórbygging íslenskra vinstristjórnmála.
Tony Blair fyrrum formaður breska Verkamannaflokksins er hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar. Bæði Össur og Björgvin G. státuðu sig um aldamótin að vera ,,Blairistar" og með skírteini breska systurflokksins upp á það.
Blair skrifar grein í New Statesman til að útskýra ógöngur Verkamannaflokksins og óbeint Samfylkingarinnar.
Verkamannaflokkurinn/Samfylking eru í höndum fólks sem hatast við siði og gildi almennings. Sjálfhverfustjórnmál, identity-politics, eru aðall róttæklinganna sem fyrirverða sig fyrir sögu og menningu þjóðarinnar sem fóstraði þá. Hægrimenn sigra auðveldlega menningarstríðið sem róttækir vinstrimenn fitja upp á í einni útgáfu eða annarri. Einfaldlega vegna þess að almenningur kýs að líða vel í eigin skinni og lifa í sátt við sögu sína og menningu.
Til að bjarga valkosti við Íhaldsflokkinn þarf að afbyggja og endurbyggja Verkamannaflokkinn, skrifar Blair. Án umskipta er flokkurinn dauður.
Bretland er í reynd tveggja flokka stjórnmálakerfi. Ísland er fjölflokkakerfi. Samfylkingin stefndi að tveggja turna kerfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, með lággróðri smáflokka er leituðu í skuggsælu turnanna eftir stöðu veldissólarinnar á hverjum tíma.
Samfylkingin kom ekki fyrir sjónir eins og turn heldur skopparakringla. Í hrunstjórninni 2007-2008 var fylkingin til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, gekk erinda auðmanna af slíkri ákefð að varaformaður flokksins lagði til að enska yrði opinbert tungumál á Íslandi. Í vinstristjórninni 2009-2013 var Samfylkingin til vinstri við Vinstri græna og efndi til pólitískrar borgarastyrjaldar gegn stjórnarskrá lýðveldisins.
Samfylkingin er flokkur án kjölfestu. Eða, svo notað sé líkingarmál úr verkfræði, turninn var skakkt byggður þegar í upphafi.
Íslenskuð ráðlegging Blair til Samfylkingar er: leggið þið flokkinn niður. Þá er kannski hægt að byggja lítið sætt kratískt hús á traustum grunni. Nafnið er þegar komið, Viðreisnarfylkingin.
Athugasemdir
Hvað eru hér margar háskólagráður
allavega er hér engin tenging við Verkalýð
Grímur Kjartansson, 16.5.2021 kl. 19:26
Fólk skynjar öfugmælin í því að vinstrimenn skuli vera málpípa glóbalista framar almenningi. Glóbalisminn er votur draumur fjölþjóðafyrirtækja og embættismannaelítunnar. Eins konar kapítalistískur Marxismi.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.5.2021 kl. 21:35
Sjangríla er að vinna fyrir skattsviknu fé í Brussel fyrir alþjóðlegt kerfi kratismans sem er innilokað í tollmúrum hinna fáu gegn afganginum af heiminum.
Halldór Jónsson, 17.5.2021 kl. 00:43
Það hefur vafist fyrir fleirum en mér hvað skal kalla þennan pólitíska hrærigraut sem stefna allir að sama marki.flestum kemur betur að hafa það stutt.
Helga Kristjánsdóttir, 17.5.2021 kl. 01:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.