Samfélag í boðhætti og skömm

,,Við verðum"-samfélagið er einum þræði æfing í þegnskap. Við verðum að gæta sóttvarna, verðum að sýna tillitssemi, verðum að þreyja þorrann þótt enn sé ekki hafinn gormánuður.

Æfing í þegnskap eykur samstöðu, gerir samfélagsmarkmið skýr, vinsar út aðalatriði frá aukaatriðum og setur gæði eins og heilbrigði ofar peningaverðmætum. 

Að sumu leyti er samfélag í boðhætti afturhvarf til fyrri tíma þegar þorri landsmanna hékk á horriminni og lítið mátti út af bregða til að hungur ylli mannfalli. Sjálfsbjörg, að því marki sem náttúruöflin slípuðu hana ekki til, var síður viðhaldið með fortölum og föðurlegum áminningum en oftar af ótta við skömm.

Yfirvöld reyna sitt ítrasta að biðja en ekki banna, ráðleggja en ekki hóta. En það er kominn jarðvegur fyrir skömmina. Það sést á umræðunni. Þingmaður hallar orði að ráðherra og fær meðferð eins og kynferðisglæpamaður. Hér er að vísu um að ræða vinstripólitík en þar er ávallt stutt í skömmina. Góða fólkið sér heiminn í svörtu og hvítu, sannfæringin er yfirsterkari litbrigðum mannlífsins.

Eitt merkilegasta við menninguna er að hún er ekki sköpuð af ásetningi heldur verður hún til í síhvikulli glímu mannsins við umhverfi sitt og aðstæður. Þegar snögg veðrabrigði verða á aðstæðum, líkt og farsótt, tekur menningin heljarstökk ef við gáum ekki að okkur.

Þegnskapur er góðra gjalda verður. Að ala á skömm er aftur ekki gott uppeldi.

 


mbl.is „Við erum í vanda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Áratugum saman fórust alltof megir sjómenn. Mönnum var þó ekki bannað að sækja sjóinn til að færa björg í bú. Svo lengi sem ég man hefur þjóðin staðið saman en það gengur ekki að banna fólki að sækja "björg í bú" með því að loka leikhúsum, kæfa menninguna, túrisma og allt hvaðeina.

Við höfum um tvo vonda kosti að velja, eins og í Íslendingasögunum, að kæfa andlegt þrek fólks til að bjarga fólki en eyðileggja líf annarra. Sjúklingar með aðra sjúkdóma veigra sér að trufla "samstöðuna" og leita sér ekki hjálpar - og deyja. Þegar allt er farið vegna "samstöðu" má spyrja, fyrir hvað lifum við eiginlega? Fjöldagjaldþrot mun tvístra fjölskyldum. Börnin bera sárin alla æfi. Það er of sárt að sjá mömmu og pabba missa sjálfsvirðinguna - heima í stofu. 

Þeir fiska sem róa, eða eigum við bara að ferðast innanhús fram í rauðan dauðan. Það er sárt að sjá eftir fólki í "hafið" en lífið er ekki án áhættu. 

Benedikt Halldórsson, 7.10.2020 kl. 10:16

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Það komust ekki mörg börn á legg hér áður fyrr en engin gafst þó upp og veslaðist upp heima í baðstofu. 

Það er okkur í blóð borið að bjarga okkur. Gerum okkur klár í "bátana" strax í fyrramálið. Þeir fiska sem róa. Nú er nóg komið. Það er ekki í verkahring búrókrata að vera skapandi með fullri virðingu fyrir þeim.

Tökum tillit til þeirra sem vilja alls ekki taka áhættu gagnvart veirunni. Það á að opna leikhúsin og landið upp á gátt. Hver og einn á að fá að taka áhættu án afskipta yfirvalda. 

Fólk finnur lausnir ef því er ekki bannað að bjarga sér. Það munu líka finnast lausnir fyrir þá sem vilja ekki taka neina áhættu. 

Áfram Ísland. 

Benedikt Halldórsson, 7.10.2020 kl. 10:58

3 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Á íslandi eru tvær þjóðir, annars vegar fólk sem lifir áfram eins og blóm í eggi, sama á hverju gengur, og svo þúsundir sem eru að missa aleigu sina - að óþörfu. 

Benedikt Halldórsson, 7.10.2020 kl. 11:31

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þessar tölur segja að veiran er í rénun, hún er hætt að drepa Svía og Bandarikjamenn. Það er ljóst að það er engin leið að koma í veg fyrir smit, alveg gjörsamlega útilokað. 

Benedikt Halldórsson, 7.10.2020 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband