Mánudagur, 20. apríl 2020
Vísindi heilsu, hagfræði og valdstjórnar
Sá sem ákallar vísindin til hjálpar í baráttunni við kórónuveiruna fer í geitarhús að leita ullar. Vísindi eru ekki ein heldur skiptast þau í skiptast þau í ótal undirgreinar, sem aftur greinast í undirflokka.
Þær þrjár vísindagreinar sem helst koma við sögu um þessar mundir eru farsóttarfræði (læknisfræði plús tölfræði), hagfræði og stjórnspeki/valdstjórn. Almennt tala þessar vísindagreinar ekki sín á milli í fræðunum. Farsóttarfræði er undirdeild í lýðheilsulækningum, hagfræði er viðskiptagrein og stjórnspeki er ýmist kennd sem húmanísk, enda Platón og Aristóteles frumhöfundar, eða félagsvísindagrein.
Hver vísindagrein kemur sér upp kennisetningum sem teljast viðurkennd fræði hverju sinni og þróast í takt við siði og menningu.
Sérlega fróðlegt dæmi um hve vísindin eru vanmáttug sem heild gagnvart farsóttinni er breskt viðtal við einn virtasta faraldsfræðing Svía, Johan Giesecke, þann sem réð til starfa núverandi Þórólf sótta þeirra Svía, Anders Tegnell. Nær allt viðtalið er um stjórnspeki, hvernig á að taka samfélag í gegnum farsótt, en sá sænski neglir spyrilinn með lýðheilsufræðum og sóttvörnum. Svör Svíans, sem bersýnilega líður illa, eru pottþétt og höggvarin lýðheilsufræði en spyrilinn er stöðugt að spyrja um valdstjórn, - sem eru ekki lýðheilsufræði.
Meðfylgjandi frétt er um lögfræðilegt álitamál um afleiddar afleiðingar af farsóttinni; um möguleg dómsmál vegna tapaðra lána. Enn ein fræðigreinin kemur til sögunnar.
Hvað ber að gera?
Jú, byrja á því að viðurkenna að vísindi eru ekki ein heldur mörg, gera gagn en eru takmörkuð. Í öðru lagi að upphaf allra vísinda er skynsemin. Og skynsemin er besti leiðsögumaðurinn um ókannaðar slóðir.
Lögfræðilega rangt og hreint og beint óskiljanlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.