Miðvikudagur, 1. janúar 2020
Katrín og mótsögnin um manngert veðurfar
Íslendingar þekkja náttúruhamfarir. Eldgos, jarðskjálftar, hafís og harðindaár eru skráð í sögu okkar frá elstu tíð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi í áramótaávarpi aðventuóveðrið á nýliðnu ári og sagði:
Ellefu þúsund manns og 7500 heimili og fyrirtæki voru án rafmagns þegar verst lét. Hross og skepnur féllu, foktjón varð verulegt og við misstum ungan mann norður í Sölvadal slíkt tjón verður aldrei bætt. Veðurofsinn hefur sýnt og sannað að tryggja þarf innviði um land allt betur en nú er og hafa stjórnvöld þegar hafið vinnu við að skipuleggja þær umbætur.
Hvergi minntist forsætisráðherra á loftslagsvá í tengslum við óveðrið á aðventunni. Enda hefði það verið kjánalegt. Veðurofsi á Íslandi er náttúrulegt fyrirbrigði frá landnámstíð.
En þegar Katrín ræðir veðurfar í öðrum heimshlutum kemur annað hljóð í strokkinn.
Um allan heim hefur krafan um aðgerðir gegn loftslagsvánni orðið háværari í ár. Neyð hefur skapast víða um heim vegna veðurfarsöfga; það eru hitabylgjur, þurrkar, flóð og gróðureldar.
Jæja, Katrín, veðrið í útlöndum er sem sagt manngert en Íslendingar búa við náttúrulegt veðurfar. Eða hvað?
Raunar má finna í ávarpi forsætisráðherra skýringu á þessari mótsögn. Katrín segir:
Þó að aðgengi að upplýsingum sé mikið, eru þær misáreiðanlegar og til eru flókin algrím sem stýra okkur á netinu og halda fólki stundum í eigin samfélagskima sem það heldur að sé samfélagið allt.
Þeir sem trúa á manngert veðurfar, þvert á alla reynslu sögunnar, eru í ,,eigin samfélagskima." Þessi kimi er pólitískur og trúarlegur, biskup Íslands nýjasta dæmið, en hefur mest lítið með náttúrulegan veruleika að gera.
Ungt fólk stöðugt í beinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.