Þriðjudagur, 24. desember 2019
Eftir nýfrjálshyggju og kratisma
Nýfrjálshyggja Reagan og Thatcher fékk framhaldslíf með tæknikratisma Obama og Blair, segir efnislega í uppgjöri vinstriútgáfunnar New Republic við áratuginn sem er að líða.
Eftir tæknikratisma Obama og Blair reyndu engilsaxneskir frjálslyndir og vinstrimenn fyrir sér með róttækari stefnumálum sem má kenna við Bernie Sanders og Elisabeth Warren í Bandaríkjunum og Jeremy Corbyn í Bretlandi. Hvorugt er almennilega að gera sig, samanber úrslitin í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi og prófkjörsbaráttu demókrata í Bandaríkjunum.
Nýfrjálshyggjan skorar heldur ekki hátt. Markaðsbúskapur er almennt talin skásta skipan efnahagsmála en jafnframt gefið að ríkið eigi að tryggja almenna velferð.
Efnahagsmál og velferð voru miðlægir þættir í nýfrjálshyggju og tæknikratisma. Vettvangur pólitískra deilna er annar síðustu ár. Frá 2016, með kjöri Trump og Brexit, er sjálfsskilningur einstaklinga og þjóða miðlægur. Þar má greina nýjar meginandstæður.
Í fyrsta lagi vinstriættaðar hugmyndir um að einstaklingurinn þrífist best í alþjóðasamfélagi. Í öðru lagi hægrihugmyndir um að þjóðríkið sé hornsteinn er tryggi samheldni samfélaga.
Af þessu leiðir horfa vinstrimenn til alþjóðlegra vandamála, t.d. loftslagsvá, er kalla á alþjóðavald á meðan hægrimenn eru tortryggnir á yfirþjóðlegt vald.
Á bakvið andstæðurnar liggur gagnólík sannfæring um hvar maðurinn eigi heima. Vinstrimenn eru hallir undir heimsborgarann sem í krafti menntunar, tengsla og þokkalegrar afkomu getur átt heima hvar sem er á jarðarkringlunni eins lengi og hann búi að nettengingu og morgunsopinn sé latté. Hægrimenn telja aftur að maðurinn eigi heima þar sem menningarlegar rætur hans liggja.
Pólitík er nú á dögum meira spurning um gildismat en efnahagspælingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.