Laugardagur, 5. október 2019
Björn og skýrslan: Ísland er hjálenda
Ísland var hjálenda erlendra konunga, norskra og danskra, frá Gamla sáttmála á 13. öld og fram á 20. öld. Á þeim tíma urðu Íslendingar ópólitísk þjóð, sinnulaus um landsstjórnina enda valdið í útlöndum.
Skýrsla Björns Bjarnasonar um EES-samstarfið boðar að Íslendingum sé farsælast að líta á sig sem hjálendu Evrópusambandsins þar sem EES-samningurinn kemur í stað Gamla sáttmála.
Í tillögum til úrbóta í Björnsskýrslunni segir:
Viðurkenna ber í verki að EES-aðildin mótar allt þjóðlífið en ekki skilgreina hana sem erlenda ásælni.
Við eigum að viðurkenna útlenda valdið yfir okkur og sætta okkur við fyrirmæli þaðan, t.d. um að náttúruauðlindir okkar skuli lúta Brusselvaldinu, er efnislegi boðskapurinn. Rökin eru þau að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum.
Björn leggur til að sérstakt EES-ráðuneyti verði stofnað á Íslandi, nokkurs konar yfirráðuneyti, er skammti lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum svigrúm til að ráðstafa málum þannig að yfirvaldið í Brussel sé sátt.
Skýrsla Björns Bjarnasonar dregur skýra víglínu milli tveggja meginskoðana í stjórnmálum. Í einn stað eru þeir sem telja þjóðina ekki kunna fótum sínum forráð og þurfa ,,handleiðslu" frá Brussel. Í annan stað þeir sem treysta Íslendingum til að reka burðugt fullvalda þjóðríki á eigin forsendum.
Samviskuspurningin sem hver og einn þarf að svara er þessi: hvort vil ég líta á Ísland sem hjálendu eða fullvalda þjóðríki?
Brýnt að skerpa á hagsmunagæslunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ísland er hjálenda. Spurningin er hver verður amtmaður EES?
Stiftamtmaður Íslands verður gjörsamlega óínáanlegur falinn í frumskógi reglugerða. Jafnvel þótt stiftamtmaðurinn verði ekki 5 ára óviti eins og síðast, vitum við ekki einu sinni hvar uppspretta valdsins liggur - hvað þá seinna.
Það er fullkominn óvissa um ESB nsem ekki er sú kjölfestan sem Ísland getur reitt sig á. Engin veit hver hefur sigur í valdabaráttunni um heiminn ef svo má segja.
Ekki dugar lengur að segja nei takk. Orkupakkinn fór í gegn vegna þess að við eigum að læra að hlýða erlendu ofuurvaldi.
Hvað gera bændur nú?
Benedikt Halldórsson, 5.10.2019 kl. 11:08
Vel að orði komist Páll.
Þjóðin er að læra að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki sjálfstæðisflokkur. Það er ný staða sem tekur smá tíma að renna upp fyrir henni. Skýrslubjörninn sá mun varla þurfa að kemba hærurnar, því hann er þegar að hálfu fallinn fyrir eigin hendi. Nýtt mun koma í hans stað og plokka úr honum tóruna.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 5.10.2019 kl. 16:43
Kærar þakkir Páll fyrir ómissandi pistla þína, þú ert skarpur penni með skýra hugsun. Skýrslan er um 300 blaðsíður og afstaðan hjá höfundum sú sama og hjá fylgjendum Leníns: Öllum er vísað á bug nema þeim sem kunna utantil tilvitnanir með vísun á blaðsíðu og línu. Stjórnmál Sjálfdauðaflokksins eru framleidd af lögfræðingum fyrir lögræðinga sem útskýrir sjálfdauðann. Ég fæ tíma í næstu viku til að lesa skýrsluna og læt í mér heyra eftir það. Góðar kveðjur frá Svíaríki.
Gústaf Adolf Skúlason, 5.10.2019 kl. 21:27
Er ekki hægt að snúa þessu við? Með samningnum um EES við ES gerðum við allan pakkann að hjálendu Íslands?
Tryggvi L. Skjaldarson, 6.10.2019 kl. 07:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.