Sunnudagur, 8. september 2019
Frjálslyndar náttúruhamfarir: völdin til góða fólksins
Macron Frakklandsforseti er ljósberi frjálslyndra stjórnmála á vesturlöndum. Macron gerði skógarelda í Brasilíu að alþjóðlegu stórvandamáli er kallaði á yfirþjóðleg afskipti af innanríkismálum stærsta ríkis Suður-Ameríku.
Margir fjölmiðlar á vesturlöndum tóku undir ásökun Macron um að heimili alls mannkyns stæði í ljósum logum.(Ásökun Macron varð að þjarki um útlit eiginkonu Frakklandsforseta.)
Frjálslynd stjórnmál byggja á þeirri forsendu að góða fólkið, frjálslyndir, viti betur en aðrir hvernig eigi að stjórna heiminum. Frjálslynd stjórnmál réðu ferðinni á vesturlöndum eftir seinna stríð og fram til 2016 þegar sigur Trump og Brexit settu strik í reikninginn.
Eftir 2016 reyna frjálslyndir að telja okkur trú um að alþjóðlegur vandi, loftslagsbreytingar af mannavöldum, beinlínis krefjist þess að fólk eins og Trump og niðurstaða eins og Brexit verði lýst ómarktæk og að engu hafandi.
Frjálslyndir fjölmiðlar, og þeir eru margir, taka þátt í frjálslyndu pólitíkinni. Í nokkra daga eftir útspil Macron um að eldar í Brasilíu stefndu heimsbyggðinni í hættu birtust raðfréttir í stærstu fjölmiðlum heims um að einmitt þannig væri í pottinn búið.
Ýkjur og lygi ferðast á ljóshraða en sannleikurinn er seinn á fætur. En eftir hik og heimildavinnu bárust upplýsingar um að Macron færi með fleipur: Forbes og RT tóku saman efni sem sýndu að skógareldar væru síminnkandi vandamál og heimsbyggðinni stæði engin ógna af þeim.
Þeir frjálslyndu bíða nú vongóðir eftir næstu náttúruhamförum til að að heimfæra upp á manninn og krefjast alheimsstjórnar góða fólksins.
Athugasemdir
Háskólahamfaraheimska
Óskar Kristinsson, 8.9.2019 kl. 12:57
Orðatiltækið er innflutt, eins og margt annað: "A lie can run round the world before the truth has got its boots on". Gamalt, en viðeigandi þessa dagana.
Kolbrún Hilmars, 8.9.2019 kl. 13:12
Engin vísindakenning er sannanleg. Benda má á að hvorki afstæðiskenning Einsteins né þróunarkenning Darwins hafa verið sannaðar. Hins vegar eru líkurnar á sannleiksgildi þeirra svo miklar að þær eru taldar fullgildar. Ein nægilega sterk rök gætu kollvarpað þessum kenningum, þau rök hafa ekki komið fram.
Hlýnun loftslagsins á jörðinni hefur verið staðfest með fjölda mælinga. Það er lítill vafi á því að orsök hennar stafar af CO2 o.fl. gróðurhúsalofttegundum. Engin gild rök hafa afsannað það.
Maðurinn getur ekki stjórnað loftslaginu á jörðinni, en hann getur haft áhrif á það, á því er vart nokkur vafi. Spurningin er, hvernig fer hann að því?
Hver á forgangsröðunin að vera í því að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda og hvernig á að framkvæma hana? Ég get ekki svarað því.
Eitt er víst, mataræði íslenskra skólabarna er þar ekki efst á blaði.
Hörður Þormar, 8.9.2019 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.