Sunnudagur, 3. mars 2019
9 flokkar og uppskriftin að Íslandi
Heilir 9 flokkar fá mælingu í könnun og allir nema einn fulltrúa á alþingi. En landsmenn skiptast ekki í níu pólitískar fylkingar. Hvað veldur slíkum fjölda framboða?
Á meðan fjórflokkakerfið var og hét, frá lýðveldisstofnun og fram undir hrun, voru til tveir kjósendahópar. Flokkshestar sem kusu sinn flokk í gegnum súrt og sætt og lausafylgi er kaus eftir pólitískum tískustraumi. Kalda stríðið og barátta við verðbólgu voru meginuppspretta deilna.
Um aldamótin stokkuðu vinstrimenn upp flokka sína, Alþýðubandalagið klofnaði í Samfylkingu og Vinstri græna; Alþýðuflokkur fór nánast í heilu lagi inn í Samfylkingu á meðan Kvennalistinn dreifðist.
Stóru deilumál lýðveldisáranna, kalda stríðið og verðbólgan, urðu jaðarmál um aldamótin. Ný átakamál, s.s. Evrópumál og náttúrvernd, komu í staðinn.
Annað mál, séríslenskt, gegnsýrði samfélagið í byrjun aldar. Útrásin 2000-2008 var menningarpólitísk hamskipti á sjálfsvitund þjóðarinnar. Íslendingar trúðu margir hverjir að þeir væru sérstökum gáfum gæddir á sviði fjármála. Ofmetnaðurinn birtist í hugmyndum um að landið yrði fjármálamiðstöð á heimsvísu og að Ísland tæki sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Hrunið afhjúpaði blekkinguna. Fjármálavitið reyndist heimskuleg áhættusókn í bland við glæpahneigð.
Stjórnmálakerfið tók þátt í blekkingunni og varð illa úti í tilvistarkreppunni eftir hrun. Í framhaldi opnuðust flóðgáttir fyrir einstaklinga og hópa sem töldu sig vita hvernig ætti að bjarga Íslandi. Þar voru margir kallaðir en fáir útvaldir. Í raun er það aðeins einn óhefðbundinn pólitíkus sem átti erindi á vígvöllinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann gerði smáflokk úr gamla kerfinu að stórveldi nýrra stjórnmála í kosningunum 2013. En vantraust hrunsins ásamt misheppnuðu viðtali og atsókn fjölmiðla felldi bjargvættinn.
Samhliða fjármálalegu og pólitísku hruni tók fjölmiðlakerfið stakkaskiptum. Samfélagsmiðlar gáfu tóninn í umræðunni en hefðbundnir miðlar eltu. Dagskrárvald samfélagsumræðunnar, sem áður var í höndum fárra stjórnmálaflokka og álíka margra fjölmiðla, var komið út um víðan völl. Og er þar enn.
Stjórnmálaflokkar bjóða uppskrift að samfélagi. Ein 9 framboð þykjast vita og kunna hvað þarf til að gera Ísland starfhæft. En þjóðin skiptist ekki í 9 fylkingar. Íslendingar eru ein fylking þótt meiningarmunur sé nokkur á milli manna eftir búsetu, afkomu og lífsskoðun. Þeir stjórnmálaflokkar sem finna stærstu samnefnarana meðal þjóðarinnar munu lifa og dafna. Hinir verða neðanmálsgrein í sögu eftirhrunsins.
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.