Þrjár söguskoðanir íslenskar

Churchill, forsætisráðherrann sem leiddi Breta í gegnum seinni heimsstyrjöldina, er þessa dagana á milli tannanna á breskum stjórnmálamönnum, ýmist sagður þorpari eða bjargvættur. Bretar standa frammi fyrir stórpólitískri ákvörðun, hvernig þeir segja skilið við Evrópusambandið, og þá rífast þeir um söguna.

Sagan er alltaf tvöföld. Í fyrsta lagi liðin tíð, og í þeim skilningi óbreytanleg; eitthvað gerðist eða ekki. Í öðru lagi skilningur á fortíðinni. Sá skilningur dregur dám af samtímanum, er pólitískur.

Íslandssagan er sérstakari en aðrar þjóðarsögur að því leyti að við teljum okkur vita tiltölulega nákvæmlega hvenær hún hófst, á seinni hluta 9. aldar með landnámi norrænna manna.

Gullöld Íslandssögunnar er frá landnámi fram á miðja 13. öld þegar Íslendingar sigldu á milli heimsálfa, settu saman ódauðleg bókmenntaverk og bjuggu við fjölræði goðaveldis. Eftir það tekur við tímabil eymdar sem varir fram á 19. öld þegar Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og fáeinir fleiri hefja endurreisn sem lýkur með lýðveldisstofnun laust fyrir miðja síðustu öld.

Langa eymdin frá Gamla sáttmála 1262/64 til þjóðfundarins 1851 er helsta álitamálið í stórsögu þjóðarinnar. Í meginatriðum eru þrjár útgáfur af söguskilningi þessara alda, þar sem ábyrgðinni á eymdinni er úthlutað. Útgáfurnar þrjár eiga hver um sig pólitískt bakland í samtímanum.

Kratíski söguskilningurinn er að íslenskir stórbændur hafi staðið þjóðlífinu fyrir þrifum. Þeir kúguðu vinnuhjú, lögðu lamandi hönd á framfarir þurrabúðarfólks og tómthúsmanna er reyndu að afla sér lífsviðurværis með sjávarnytjum. Danska konungsvaldið reyndi að hnika málum í rétta átt en mátti sín lítils gegn íhaldssemi stórbænda.

Borgaralegi söguskilningurinn liggur þétt að þeim kratíska en kennir fremur Dönum um að hér varð ekki til þéttbýli sem gæti lyft þjóðfélaginu úr dróma. Áhugaleysi Dana og sinnuleysi Íslendinga sjálfra er ástæða eymdarinnar.

Náttúrukenningin í söguskilningi er að Íslendingar hafi gert það skásta úr erfiðum aðstæðum. Vinnuafl var af skornum skammti og því var skynsamlegt að flytja það frá einu landssvæði til annars, eftir árstíðum. Vetrarvertíð var stunduð af bændum og vinnumönnum þegar sveitin þurfti ekki á vinnuafli að halda. Þegar voraði tæmdust verin og vinnuaflið hélt upp til sveita. Hvorki kúgun (innlend eða dönsk) né sinnuleysi spilaði stóra rullu. Náttúrulegar aðstæður kröfðust aðlögunar.

Byggð norrænna manna fyrir vestan okkur, á Grænlandi, lagðist af á miðju eymdartímabilinu. Það væri kjánalegt að reyna að skýra þá staðreynd með vísun í kúgun eða sinnuleysi. Aðstæður ótengdar mannlegu eðli skiptu sköpum.

Náttúrukenningin er haldbesti skilningurinn á löngu eymdinni. Þegar Íslendingum opnuðust traustari markaðir fyrir fiskútflutning, á friðaröldinni eftir Napóleon-stríðin á 19. öld, nýttu þeir sér það og hófu skútuútgerð. Þegar vélvæðing varð möguleg í sjávarútvegi um 1900 gripu menn tækifærið og vélvæddust. Stóraukinn sjávarútvegur breytti Íslandi úr bændasamfélagi í borgarsamfélag á undraskömmum tíma.

Söguskilningur er mikilvægur. Án söguskilnings eru gerð stórkostleg mistök. Til dæmis að senda ESB-umsókn til Brussel. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband