Sunnudagur, 27. janúar 2019
Evrópa: kristni, kommúnismi og ESB
Í yfirlitsriti um miðaldir, sem fyrst kom út um miðja síðustu öld, segir i fyrstu efnisgrein: Þessi bók gæti heitið Evrópa miðalda. En það væri rangnefni. Þá sjaldan að notað var hugtak yfir alla álfuna var hún kölluð ,,hinn kristni heimur" - ekki Evrópa.
Kristindómur, bendir höfundurinn á, Denys Hay, var stærri en Evrópa, náði inn í Asíu. Þar að auki voru hlutar Evrópu nútímans, austurhluti Þýskalands og slavneskar þjóðir þar fyrir austan, ekki taldar með kristni fyrr en seint á 14. öld.
Miðaldir náðu yfir þúsöld, 500 til 1500. Almenn sátt er um upphaf þeirra, hrun Rómarveldis, en nokkrir atburður í kringum 1500 þykja marka endalok miðalda: prentverk Gutenberg um miðja 15. öld, fall aust-rómverkska ríkisins í Miklagarði 1453, ferð Kólumbusar til Ameríku 1492 og mótmæli Lúthers 1517.
Tímabilin sem brúa miðaldir við löngu 19. öldina eru kennd við endurreisn annars vegar og hins vegar upplýsingu. Kristni var ráðandi hugmyndafræði bæði þessi tímabil. Blóðugt 30 ára stríð kaþólikka og mótmælenda 1618-1648 sýndi að menn drápu og dóu fyrir rétta útgáfu af kristni.
Langa 19. öldin frá frönsku byltingunni 1789 til fyrra stríðs 1914 bauð upp á kristna heimsvaldastefnu. Kristnu stórveldin, einkum Bretland og Frakkland, stunduðu stórfelldan útflutning á hugmyndafræðinni og fléttuðu saman við landvinninga í Afríku og Asíu. Önnur þróun í kristnu heimaríkjunum, einstaklingsfrelsi og lýðræði, gróf jafnt og þétt undan kristinni hugmyndafræði á löngu 19. öldinni.
Fyrri heimsstyrjöld var síðasta kristna stórstríðið. Enginn einhugur er um hvað hleypti af stað stríðinu. Bókin sem stendur upp úr á aldarafmælinu heitir Svefngenglar. Titillinn er kenningin; leiðtogar stærstu Evrópuríkja álpuðust í stríð. Fyllri titill væri Kristnir svefngenglar.
Síðasta andvarpi kristni fylgdu veraldleg trúarbrögð, fasismi og kommúnismi. Þau nutu hylli víða um álfuna á síðustu öld en bættu ekki mannlífið þegar til lengdar lét.
Upp úr þessari sögu verður til hugmynd um ESB-Evrópu, valkostur fyrir trúlausa menningu skreyttri með hortittum eins og fjölmenningu og frjálslyndi. Menntamenn lýsa yfir áhyggjum að ESB-Evrópa sé að renna sitt skeið.
Í stóra samhenginu er ESB hagkvæmnishjónaband öflugustu ríkja álfunnar, Frakklands og Þýskalands. Önnur ríki eru gestir. Hjónaband af hagkvæmni skortir staðfestu sem aðeins fæst með djúpri sannfæringu, - t.d. trúar.
Athugasemdir
Það er stór galli á þessari bókargjöf Njarðar Páll.
Fyrri heimstyrjöldin hófst vegna heimsvaldadrauma Þýskalands. Það þarf einbeittan vilja til að starta stríði. Þau gerast ekki bara sí svona. Ef að atburðurinn í Sarajeveó hefði ekki gerst þá hefði þýska keisaraveldið bara fundið sér aðra afsökun sem startskot. Ekki var um neina svefngengla að ræða. Alls ekki.
Upplýsingin skaffaði Napóleon afsökun fyrir morðum á tugum milljónum manna, því í nafni hennar réðst hann inn í lönd til þess að "leiðrétta" þau. Laga þau til og endurskapa samkvæmt universal-röksemda-sannleika Upplýsingarinnar, sem var nýjasta þvaður Líberalista þeirra tíma.
Svo kom Karl Marx og fékk universal reglustrikurnar að láni hjá Upplýsingunni og lagði hinn Kristna heim álfunnar í rúst, og Asíu líka, að miklu leyti. Háskólar Upplýsingarinnar féllu fyrir röksemda vísindum Marx, sem voru eitt allsherjar þvaður á Upplýsinga-pappír, frá upphafi til enda.
Við stöndum enn á rústa-þvaðri dellukalla Upplýsingarinnar í dag. Sviðin jörð að of mörgu leyti. Enda sést það á Heiðnikirkjuveldi háskólanna, sem eru minnisvarðar um geggjunar-geldingar Upplýsingarinnar.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 27.1.2019 kl. 11:33
Þjóðverjar eignuðust ríki seint, Þýskaland verður ekki ríki fyrr en á 19. öld. Stundum er talað um þýska sérleið í sögunni, Þjóðverjar eru ekki til friðs eftir að þeir fá ríki.
Nærtækara, að mínu áliti, er að líta annars vegar til þess að Þjóðverjar eru Mið-Evrópumenn með óljós landamæri menningar, og þar með þjóðríkis í allar áttir, og hins vegar hve seint Þjóðverjar urðu þjóðríki.
Nánar um fyrr atriðið: Þýska ríkið frá og með 1860 til 1938 börðust við nágranna sína í norðri (Dani), vestri (Frakka), suðri (Austurríki og Tékkland) og austri (Pólland) um hvar landamærin ættu að liggja.
Seinna atriðið: Þjóðríki, t.d. Frakkar, nýttu sér veika stöðu Þjóðverja snemma á nýöld til að setja upp landamæri án tillits til þýskrar menningar.
Málin eru sem sagt flókin. Sá sem hér skrifar kaupir ekki kenningar um eðlislæga árásarhneigð Þjóðverja.
Páll Vilhjálmsson, 27.1.2019 kl. 15:18
.. og Páll leitar því að WWI skýringunni á öllum vígstöðvum örðum en þeim augljósu; imperial-fyrirætlunum þýska keisaraveldisins.
Þýska valdastéttin er ekki það sama og þýskur almenningur. Það sést ákaflega vel enn þann dag í dag, þegar horft er á evru-heimsveldi þýskra í rústum þeirrar stéttar. Aðeins sú stétt sjálf trúir þvælu hennar um Sonderweg.
Gunnar Rögnvaldsson, 27.1.2019 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.