Sunnudagur, 30. desember 2018
Valkvæð Evrópusaga
Í hliðargötunni Via Tasso í Laternao-hverfinu í Róm er safn helgað frelsun ítölsku höfuðborgarinnar í seinna stríði undan Þjóðverjum. Safnið lætur lítið yfir sér, maður hringir bjöllu í andyri íbúðarhúss og vinaleg eldri kona í einkennisbúningi hleypir gestum inn og gerir ekki ráð fyrir öðru en gestirnir séu ítölskumælandi.
Safnið er bygging sem Þjóðverjar leigðu fyrir seinna stríð undir menningardeild þýska sendiráðsins en gerðu að fangelsi í stríðinu. Safnið er allt á ítölsku en hægt er að frá lánuð hljóðvarpstæki á öðrum tungumálum.
Eftir því sem næst verður komist er safnið einkaframtak Ítala sem tengdust andspyrnuhreyfingunni. Samkvæmt Wikipedia fær það stuðning frá opinberum aðilum. Þó er ofmælt að næsta neðanjarðarstöð beri nafn safnsins. Manzoni-stöðin er ekki með viðskeytið ,,Museo della Liberazione" nema að forminu til.
Almælt söguleg tíðindi eru að Ítalir stóð við hlið Þjóðverja framan af stríði. Þeir Mussolíni og Hitler voru vopnabræður. Þegar stríðsgæfan varð Þjóðverjum andhverf sneru Ítalir við blaðinu, fórnuðu Mussolíni og vildu frið við bandamenn. Þjóðverjar létu Ítali ekki komast upp með neinn moðreyk og léku þá marga grátt, m.a. í Via Tasso.
Ekkert af forsögunni kemur fram í safninu. Þar eru engar skýringar á hugmyndafræðinni sem sameinaði þýsk og ítölsk stjórnvöld. Ítölsku andspyrnuhetjurnar sem áttu síðustu viðkomu í jarðlifinu á Via Tasso eru ekki settar í samhengi við atburði áður en kastaðist i kekki milli vopnabræðranna.
Valkvæða Evrópusagan sem birtist í litla safninu á Via Tesso segir heilmikla sögu um hve langt er í land að stórþjóðir meginlandsins horfist í augu við nýliðinn tíma. Þjóðir sem skauta létt yfir erfiða fortíð eru vísar að láta samtíð sína stjónast af ímynd. Til dæmis ímyndinni um samstöðu Evrópuþjóða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.