Þriðjudagur, 4. desember 2018
Leikhúslýðræði
Forn-Grikkir kenndu að í leikhúsið færu menn að hreinsa sig. Maður lifði sig inn í breyskleika leikpersóna, framdi syndir og drýgði hetjudáðir, án þess að hætta neinu til sjálfur.
Að lokinni sýningu var leikhúsgesturinn hreinsaður.
Troðfullt var á leiklestur Borgarleikhússins á drykkjutali sex þingmanna þar sem var ,, meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika."
Án efa hefur enginn viðstaddra nokkru sinni hallað orði á starfsfélaga, baktalað nokkurn mann eða gert grín að þeim sem eru öðruvísi. Allt er þetta fullkomin nýlunda fyrir viðstadda.
Og allir fóru heim hreinsaðir og sáttir að vera betri menn en sexmenningarnir ógurlegu.
Stórkostlegt rannsóknarefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar maður hugsar til þeirrar umræðu sem fer fram á þráðum hér og þar, t.d. Um Jón Steinar lögmann og níðvísur um útvarpsstjóra Sögu, þá undrast maður að hægt sé að fylla leikhús til að hlusta á endurvarp af fréttum RÚV og Stundarinnar.
En það er víst ekki sama hver níðir hvern.
Ragnhildur Kolka, 4.12.2018 kl. 09:28
Ekki sama hver níðir hvern. Hárrétt, Ragnhildur.
Páll Vilhjálmsson, 4.12.2018 kl. 09:39
Það er engin reginmunur á "valdafólki" og okkur hinum. Við erum öll breysk nema auðvitað óskeikulir vinstri sinnaðir listamenn í Borgarleikhúsinu.
Oftast eru mistök okkar smávægilegar yfirsjónir sem breyta litlu. Það er eiginlega kraftaverk að við séum ekki ennþá blá fátækir öreigar fyrir utan örfáa úr yfirstétt sem dóu reyndar líka úr sömu farsóttunum. Tannpína og krabbamein hrjáði yfirstéttina ekki síður en kotunga fyrr á öldum. Ég er viss um að kóngur á sautjándu öld myndi glaður gefa hálft konungsríkið í skiptum fyrir það sem við höfum.
Borgarleikhúsið veitir innsýn inn í samtíma okkar með því að leiklesa heilt fyllerí. Það má ekki gleymast. Það lengi lifi.
Benedikt Halldórsson, 4.12.2018 kl. 10:06
Hræsni þjóðarsálarinnar opinberast í þessum "leikþætti" og ekki hvað síst í því að fólk sækist í að hlusta á sorann. Þá á ég við margumtalaðar upptökur og svo að fólk skuli hópast í leikhúsið til að velta sér upp úr drullunni.
Okkur öllum færi það best að líta í eigin barm og skammast okkar fyrir okkar eigin gjörðir, orð sem sögð hafa verið í reiði eða til að lítilsvirða náunga okkar. Eigum við til það lítillæti í okkur sjálfum og biðjumst fyrirgefningar gagnvart þeim sem við höfum sært??? eða er stoltið í okkur það sem afsakar okkur sjálf en fyrirlítum aðra með???
Tómas Ibsen Halldórsson, 4.12.2018 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.