Fimmtudagur, 1. nóvember 2018
Bandarísk hnignun, Trump og vestræn menning
Bandaríkin hafa dundað sér við að breyta landamærum og stjórnskipan ríkja um víða veröld allt frá lokum seinna stríðs. Iðjan var réttlætt með lýðræði, mannréttindum eða hráum bandarískum hagsmunum, stundum dulbúnir sem vestrænir hagsmunir, sbr. innrásin í Írak 2003.
Landamæri Bandaríkjanna urðu eins og gatasigti þegar leið á síðustu öld, einkum suðurlandamærin þar sem fátæklingar frá Suður-Ameríku streymdu til fyrirheitna landsins.
Landamæri voru eitt stóru málanna í bandarísku forsetakosningunum 2016. Trump lofaði að loka þeim fyrir óæskilegum innflytjendum og náði kjöri. Aftur eru landamærin stórveldisins á dagskrá þingkosninga tveim árum síðar.
Stórveldi með áhyggjur af eigin landamærum er komið á samdráttarskeið. Eðli stórvelda er útþensla þar sem landamærum annarra ríkja er breytt í þágu hagsmuna stórveldisins.
Mótsögnum samtímans er að um leið og Bandaríkin sýna skýr og ótvíræð merki um að þau ætli að draga úr stórveldasýningu síðustu 70 ára eru bandarísk innanríkismál orðin mál málanna í flestum ríkjum heims. Jafnvel á litla Íslandi er forseti Bandaríkjanna fyrirferðameiri í umræðunni en pólitískar heimasætur.
Aðeins einn maður, Trump, er ástæða mótsagnarinnar. Tvær skýringar gætu verið á mótsögninni. Í fyrsta lagi að hnignun Bandaríkjanna sé um leið sólsetur vesturlanda og vestrænnar menningar. Í öðru lagi að Trump sé holdgervingur vestrænnar endurreisnar.
Sendi 15.000 hermenn að landamærunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.