Fimmtudagur, 18. október 2018
Lögreglan gramsar í fordómum
Lögreglan fann fjöður í athugasemdakerfi DV og gerði úr haturshænu, öllu heldur hana, ákærði og fékk mann dæmdan. Ef lögreglan ætlar að fínkemba athugasemdakerfi fjölmiðla og færslur á samfélagsmiðlum í leit að hatri til að draga mann og annan fyrir dómstóla er hætt við að tvennt gerist.
Í fyrsta lagi að lögreglan mismuni. Hatrið sem lögreglan leitar að er í daglegu tali kallað fordómar. Þeir eru margvíslegir og hluti af mannlífinu. Lögreglan verður að forgangsraða og hafi uppi á fordómum sem hún telur sérdeilis henta að fá stimplaða sem hatur. Lögreglan er komin í pólitískt hlutverk sem þekkist aðeins í alræðisríkjum þar sem einum fordómum er hampað en öðrum úthýst.
Í öðru lagi verður það sport að daðra opinberlega við fordóma til að leita eftir viðbrögðum lögreglunnar, kanna hvar hún dregur mörkin og hvaða rétttrúnaðartíska gildir þá og þá stundina. Það beinlínis hvetur til fordóma að vita af áheyrendum sem vilja leggja við hlustir.
Hatur er tilfinning rétt eins og ást. Lögregla ræður ekki yfir tilfinningalífi fólks, a.m.k. ekki enn sem komið er. Af því leiðir er tómt mál að tala um hatursorðræðu. Hatrið getur verið ískalt, yfirvegað og fágað. Líkt og ástarjátningar eru einatt kauðskar, óheflaðar og lítt ígrundaðar.
Talsmenn refsinga fyrir meinta hatursorðræðu eru hlaðnir fordómum. Þeir vilja refsa fólki fyrir rangar skoðanir og leggjast einkum á þá sem kunna illa að koma fyrir sig orði, eru minnimáttar. Lögregla í lýðræðisríki á ekki að láta hafa sig út í slíka vitleysu.
Dæmdur fyrir hatursorðræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Páll
Með bréfi dags. 7. júní 2017 bar ég fram kæru á hendur Ahmad Seddeeq af gefnu tilefni. Ég hef ekkert heyrt frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og verð væntanlega að bara að bíða svars. Mér segir svo hugur að það muni líða drykklöng stund þar til svar berst.
Einar Sveinn Hálfdánarson, 18.10.2018 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.