Þriðjudagur, 28. ágúst 2018
Samanburður launa án sanngirni
Laun eru greidd í krónum en ekki prósentum. Samt er nær öll launaumræða um prósent hér og prósent þar. Með því að stytta eða lengja viðmiðunartíma fást hærri eða lægri prósentur í samanburði starfsstétta.
Viðurkennt er að launabil er hvað minnst hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Launajöfnuður ætti að gera auðveldara um vik að ræða hvað skilgreind störf ættu að gefa í aðra hönd. Sú umræða fer ekki fram, nema kannski í hálfum hljóðum á lokuðum fundum.
Hver eru sanngjörn laun bifvélavirkja? Kennara? Þingmanns? Ráðuneytisstjóra? Lagermanns? Sjúkraliða? Flugmanns? Ræstitæknis? - og svo framvegis.
Launasamanburður milli starfshópa fer aldrei fram á forsendum sanngirni. Hvers vegna ætli það sé? Veit enginn hver sanngjörn laun eru fyrir tiltekið starf?
Er það svo að samanburður launa er gerður í prósentum og hlutfallshækkun gagngert í þeim tilgangi að komast aldrei að samkomulagi heldur standa í stöðugu rifrildi? Það sé í reynd þegjandi samráð um að ná aldrei sameiginlegri niðurstöðu?
Segja fullyrðinguna ranga og villandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eðlileg laun eru laun sem samið er um milli starfsmanns og vinnuveitanda. Þau grundvallast á lögmáli framboðs og eftirspurnar.
Það er út í hött að tala um sanngjörn laun. Alveg eins og það er út í hött að tala um sanngjarnt verð á hlutabréfum - nú eða sanngjarnt verð á morgunkorni.
Hugtakið sanngirni hefur siðferðilega skírskotun. En það hvernig verð á vöru eða þjónustu ræðst á markaði hefur einfaldlega ekkert með siðferði að gera.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.8.2018 kl. 23:51
Í ímynduðum heimi, Þorsteinn, þar sem lögmál markaðarins ræður er hægt að hugsa sér að markaðslögmál ráði launum. Í þessum ímyndaða heimi væri verkalýðshreyfing óþörf, framboð og eftirspurn réði ferðinni.
En við búum í raunheimi, þar sem verkalýðshreyfingin og stjórnmálastéttin, auk samtaka fyrirtækja, taka höndum saman um gerð miðlægra kjarasamninga. Og þar er siðferði svo sannarlega í hluti umræðunnar - en kallast stjórnmál. Framboð og eftirspurn eru aðeins ein breyta af mörgum.
Páll Vilhjálmsson, 29.8.2018 kl. 06:36
Á hverju grundvallast þá sú staðreynd að laun þeirra sem litla eða enga sérhæfingu hafa eru langtum lægri en laun þeirra sem hafa sérhæfingu sem eftirspurn er eftir? Í kjarasamningum er aðeins samið um breytingar á launum, en að baki liggur umtalsverður launamunur eftir stéttum og hann ræðst af framboði og eftirspurn. Það er ekki svo að í kjarasamningum sé lagt mat á hver séu sanngjörn laun á grunni einhvers konar mats á mismunandi störfum. Það er fjarri lagi.
Þorsteinn Siglaugsson, 29.8.2018 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.