Föstudagur, 8. júní 2018
Peningatilraun í Sviss - og á Íslandi
Svisslendingar greiða þjóðaratkvæði á sunnudag um að bylta peningakerfi landsins. Tillagan er um að afnema leyfi banka til að lána peninga sem þeir eiga ekki.
Alþjóðlega bankakerfið gengur út á að bankar láni peninga án þess að eiga þá. Í þeim skilningi búa bankar til peninga. Kerfið er kallað brotaforðakerfi (fractional reserve). Brotaforðakerfið er já, eins og nafnið bendir til, brothætt. Kerfið veldur óstöðugleika og bankakreppum. En það virkar í þeim skilningi að veita framleiðsluhagkerfinu eldsneyti.
Í stað brotaforðakerfis er hugmyndin að þjóðnýta bankakerfið með því að svissneska ríkið sé eitt um að búa til peninga. Viðskiptabankar geta áfram lánað fé - en aðeins innistæður. Fjármálagreinendur, t.d. Martin Wolf á Financial Times, vona að Svisslendingar samþykki tillöguna enda þörf á nýmælum í bankarekstri.
Tillögunni verður á hinn bóginn líklega hafnað í Sviss. Hatrömm andstaða fjármálakerfisins skiptir þar mestu og Svisslendingar eru íhaldssamir.
Á hinn bóginn stendur yfir peningatilraun á Íslandi, sem þó er ekki skipulögð, en gengur út á þjóðnýtingu bankakerfisins. Bankakerfið hér á landi varð ríkiseign eftir snjalla samninga ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs við þrotabú einkabankanna.
Einn banki af þremur, Arion, verður gerður að einkabanka. Samhliða er unnið að endurskipulagi á verkaskiptum seðlabanka og fjármálaeftirlitsins um aðhald og eftirlit með bankastarfsemi. Enginn veit hvað kemur úr íslensku tilrauninni, enda hún ekki skipulögð sem tilraun, heldur að setja saman sjálfbært bankakerfi.
En kannski tekst að setja saman fjármálakerfi hér á landi sem ekki er með innbyggðan óstöðugleika, þjónar almenningi og fyrirtækjum án þess að drottna yfir þeim og elur ekki á sjálftöku bankafólks. Sem sagt, stórt kannski, enda búum við í ófullkomnum heimi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.