Sunnudagur, 20. maí 2018
Fjölskyldurnar 14, Sambandið og nýríkir nonnar
Fjölskyldurnar 14 er hugtak um valdaelítuna sem var sögð eiga Ísland á síðustu öld. Hugtakið er villandi, engar 14 fjölskyldur áttu Ísland. Engu að síður má nota hugtakið til að lýsa í grófum dráttum þróun atvinnulífsins á síðustu öld.
Um aldamótin 1900 voru Íslendingar komnir með yfirráðin yfir verslun og viðskiptum þar sem áður réðu Danir. Næstu áratugi urðu til stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða, sem oft voru fjölskyldurekin. Til hliðar og meðfram var kaupfélagaveldi, Sambandið. En þar fyrir utan var efnafólk, t.d. í útgerð, lyfsölu, iðnaðarframleiðslu.
Í skjóli haftabúskapar um miðja öldina festist í sessi atvinnulíf sem hafði einkenni lénsskipulags. Fyrirtæki ,,áttu" tiltekin svið. Það kom þó ekki í veg fyrir að nýir aðilar kæmu á vettvang. BYKO, til dæmis, var smáfyrirtæki um 1970.
Á síðasta fimmtungi aldarinnar komst los á atvinnulífið. Gömlu fyrirtækin (fjölskyldurnar 14) gáfu eftir og Sambandið sprakk með látum. Þegar leið nær aldamótum komu til sögunnar einstaklingar og fyrirtæki sem kunnu sér ekki hóf í útþenslu.
Kvótaauður og framsæknir menn í smásöluverslun (Baugsfeðgar) urðu á fáum árum giska frekir til fjörsins. Sambandsklíkan, forstjórar gjaldþrota viðskiptaveldis, var ekki dauð úr öllum æðum, kom sér fyrir í skipaflutningum og vátryggingum.
Við þessar kringumstæður, um aldamótin síðustu, var bankakerfið einkavætt á örfáum árum. Nýríku nonnarnir og erfingjar Sambandsins náðu forræði yfir Landsbanka, Íslandsbanka og Kaupþingi á örfáum misserum
Í krafti nýfengins auðs keyptu þeir nýríku meðreiðarsveina í fjölmiðlum og sérfræðinga, einkum í lögum, ásamt heila og hálfa stjórnmálaflokka.
En nýríku nonnarnir áttu ekki, og gátu ekki keypt, verðmæti sem eru forsenda fyrir fyrirtækjarekstri og þó miklu heldur fyrir bankaviðskiptum. Innsæi í gangverk samfélagsins segir mönnum í valdastöðum, hvort heldur í atvinnulífi eða stjórnmálum, að traust er lykilforsenda velgengni.
Traust fæst ekki keypt, það verður til yfir tíma. Gamla atvinnulífið, þetta sem kennt er við 14 fjölskyldur, byggði á trausti. Nýríku nonnarnir nutu einskins trausts enda höfðu þeir ekki unnið fyrir því.
Létu bankana snúast um sjálfa sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.