Kaþólska stendur nærri heiðni, lútherstrú einveldinu

Íslendingar gerðust kristnir á friðsömum fundi á alþingi árið 1000. Ólíkt flestum þjóðum tóku þeir sér langan tíma að kristnast, skiptu ekki um samfélagsgerð og leyfðu rótgróna heiðna siði eins og að bera út börn, hrossakjötsát og blót, sem þó skyldi fara fram í laumi. Umburðarlyndi í trúmálum er arfur okkar. 

Kristnin var kaþólsk. Rómverjar, á deyjandi dögum heimsveldisins, gerðu kaþólska kristni að ríkistrú og aðlöguðu hana að fjölgyðistrú, samanber átrúnað á dýrlinga. Kaþólskan vann sig í gegnum Evrópu á hálfu árþúsundi eða svo. Jaðarþjóðir, Íslendingar og Ungverjar, veittu fagnaðarerindinu viðtöku við þúsaldarskiptin. Enn liðu 500 ár og kristni tók hamskiptum í Norður-Evrópu, m.a. fyrir forgöngu Marteins Lúthers sem fann páfavaldinu það til foráttu að mergsjúga alþýðu og aðal með fjárplógsstarfsemi kenndri við aflátsbréf. 

Íslendingar veittu lútherstrú mótspyrnu. Síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason á Hólum, tvinnaði saman trú og þjóðernishyggju í andstöðu við siðaboðskap einveldisins. Hann og tveir synir hans voru líflátnir í Skálholti án dóms og laga 7. nóvember 1550. Í hönd fór tímabil sem ýmist er kallað danska öldin eða myrkar aldir og einkenndist af dönsku einveldi og almennri eymd. Eitt vald og ein trú er óheppilegt fyrirkomulag, eins og dæmin sanna.

Upplýsingar um kaþólsku tveggja guðfræðiprófessora við þjóðarháskólann sýna að lengi lifir í pápískunni en þó fyrst og fremst að við búum við trúfrelsi þar sem trúarsannfæringin er einkamál hvers og eins. 

 

 


mbl.is Tveir guðfræðiprófessorar kaþólskir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er engin blöndun við heiðni, að kaþólskir virða helga menn. Það sama sést í Biblíunni, sem og, að unnt er að leita til framliðinna helgra manna um fyrirbæn þeirra, sbr. II. Makkabeabók 15.12-16.

Jón Valur Jensson, 19.5.2018 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband