Laugardagur, 7. apríl 2018
Jordan Peterson og stríðið um vestræna siðmenningu
Menningarstríð stendur yfir á vesturlöndum. Kanadískur sálfræðingur, Jordan Peterson, ber um þessar mundir höfuð og herðar yfir þann aragrúa menntamanna, álitsgjafa, blaðamanna og bloggara sem taka til máls í menningarstríðinu.
Peterson varð fyrir tilviljun miðlægur í menningarstríðinu. Kanadísk stjórnvöld ákváðu að skylda háskólakennara til að nota þau persónufornöfn sem nemendur kusu sér. Ef nemandi vildi hvorki vera hún eða hann heldur ,,hán" ætti kennarinn að tileinka sér orðfærið. Peterson neitaði, kvaðst ekki láta stjórnvöld taka af sér málfrelsið. Úr varð hvellur þar sem tekist var um tjáningarfrelsi og valdi minnihlutahópa til að stjórna málfari samfélagsins.
Peterson gaf út bók, 12 lífsreglur, sem kalla má sjálfshjálparbók fyrir aumingja. En, eins og alþjóð er kunnugt, elur vestræn siðmenning af sér ógrynni aumingja síðustu áratugi. Á Íslandi birtist aumingjavæðingin m.a. þannig að stjórnmálaflokkar leita skipulega að fórnarlömbum á framboðslista. Það er smart að vera afturúrkreistingur.
Sumir töldu sig sjá kvenfyrirlitningu í sjálfshjálparbók Peterson. Stórskytta úr röðum spjallþáttastjórnenda í Bretlandi, Cathy Newman, var fengin til að leiða Peterson til slátrunar. Til að gera langa sögu stutta svaraði sá kanadíski þannig fyrir sig að vélbyssukjafturinn varð að gjalti.
Spjallið við Newman skaut Peterson á stjörnuhiminn netsins og þaðan í fjölmiðla. Virðulegir og íhaldssamir fjölmiðlar skrifa stórt og smátt um Peterson og samfélagstaugarnar sem hann snertir. Tímaritið Foreign Affairs birtir grein er lýsir framgangi Peterson sem helsta spámanni samtímans. Greinin er neikvæð gagnvart kanadíska sálfræðingnum en er fyrst og fremst staðfesting á þeim menningarpólitíska krafti sem Peterson leysir úr læðingi.
Athugasemdir
Peterson virðist vita hvað hann er að tala um og er einstaklega góður að svara fyrir sig.
Emil Þór Emilsson, 7.4.2018 kl. 18:17
Ánægulegt er að sjá að aðrir þekkja til Jordan Peterson og hans skrifa og heimspeki.
Egill Vondi, 7.4.2018 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.