Miðvikudagur, 28. mars 2018
Norður-Kórea er fullvalda, eða þannig
Í alþjóðasamfélaginu er ekkert ríki fullvalda í fyllstu merkingu orðsins. Ríki eru í margvíslegu samstarfi sín á milli, sem með einum eða öðrum hætti skerða fullveldi þeirra. Aðeins ríki sem kosta kapps að einangra sig frá umheiminum nálgast það að vera fullvalda í ströngum skilningi, t.d. Norður-Kórea.
Ísland er í Nató af sögulegum ástæðum. Hér var stofnað lýðveldi í lok seinna stríðs. Um leið og stríðinu lauk skiptist heimurinn upp í kommúnískt austur og vestrænt vestur. Ísland valdi vestur. Eðlilega.
Hlutverki Nató lauk með kalda stríðinu. Enginn óvinur í austri sat lengur um vestræn lýðræðisríki. Illu heilli var Nató ekki lagt niður eins og Varsjárbandalag kommúnistaríkja. Nató varð að verkfæri Bandaríkjanna, Breta og Evrópusambandsins til að þvinga fram pólitískar lausnir í Austur-Evrópu og miðausturlöndum sem höfðu ekkert með varðstöðu gegn ásælni kommúnisma að gera.
Engu að síður var rétt af Íslandi að halda áfram aðildinni að Nató. Ásamt varnarsamningi við Bandaríkin er Nató skásta tryggingin fyrir því að Ísland verði ekki leiksoppur stórvelda í viðsjárverðum heimi.
Aðild að Nató á þó ekki að þýða að Ísland verði hundur í bandi herskárra stríðsmangara í Washington, London eða Brussel. Það á ekki síst við þegar um samskipti við Rússland er að ræða. Rússland/Sovétríkin reyndust okkur vel þegar við glímdum við Nató-þjóðina Bretland um yfirráðin yfir fiskimiðum okkar. Það er geymt en ekki gleymt að Bretland sendi herskip á Íslandsmið til að koma í veg fyrir fullveldisrétt okkar.
Síðustu daga og vikur reyna ráðamenn í London að telja alþjóð trú um að rússnesk yfirvöld standi á bakvið banatilræði við rússnesk feðgin á breskri grundu. Faðirinn er fyrrum njósnari, sem dæmdur var í Rússlandi árið 2004 en fékk frelsi 2010 í fangaskiptum við Bretland. Ef njósnarinn var mikilvægur þjóðaröryggi Rússlands hefði honum aldrei verið hleypt úr fangelsi. Rússnesk yfirvöld er sek um eitt og annað en sjaldnast um frámunalega heimsku.
Engar sannanir eru fyrir aðild rússneskra yfirvalda að bandatilræðinu. Alls engar. Kringumstæðurök, að eitrið hafi verið framleitt í Rússlandi, eru veik. Hvers vegna lá svona mikið á að kenna yfirvöldum í Moskvu um tilræðið? Svarið liggur í breskum innanríkismálum. Stjórn Theresu May berst fyrir pólitísku lífi sínu vegna erfiðleika við að losna úr Evrópusambandinu, Brexit. Ekkert sameinar þjóðir betur en öflugur erlendur óvinur.
Þeir sem líta á banatilræðið í Sailsbury hlutlægum augum, t.d. Tom Switzer (sjá einnig hlekki í grein hans), sjá hve málatilbúnaður bresku ríkisstjórnarinnar er veikur.
Ríkisstjórn Íslands, og Guðlaugur Þórðarson utanríkisráðherra, tók skásta kostinn í ómögulegri stöðu. Við rákum enga Rússa úr landi en aflýstum fundum til að brjóta ekki vestræna samstöðu. Ef það er svo, sem ekki er vitað, að utanríkisráðherra hafi látið Breta vita að sönnunargögnin fyrir aðild Moskvu að tilræðinu haldi ekki vatni, yrði það góður plús.
Ísland er fullvalda, bara ekki eins fullvalda og Norður-Kórea. Enginn grætur þá staðreynd.
Segir Ísland ekki fullvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Maður getur ekki annað en broða að sjá kaldastríðjálkana Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson veðrast upp í heilagr hneikslan að rússnenskur erindreki hafi sagt að við værum peð ameríkana og breta og jánkuðum öllu sem þaðan kemur. Sagði einnig að þeir styddu ekki bjarmalandsförina í öryggisráðið af sömu ástæðu.
Eg spyr bara. Er þetta ekki alveg hárrétt hjá manninum? Getur einhver bent á eitt skipti þar sem við höfum ekki skrifað undir og makkað með hernaðarbrölti þeirra og vðskiptaþvingunum?
Ég vona bara að þessir mætu menn leggi aðeins dýpri hugsun í hlutina áður en þeir reyna að nýta sér sannar fullirðingar rússans til að spilla málum enn frekar.
Kannski eru þeir eimitt að þoknast og ganga i augun á sömu stórveldum, sem reyndar sannar fullyrðingu rússans.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.3.2018 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.