Þriðjudagur, 6. febrúar 2018
Átök, sjálfhverfa; íslensk stjórnmál á 21stu öld
Skýringin á átakastjórnmálum er einföld. Hrunið ól af sér tortryggni, sem aftur leiddi til pólitískrar lausungar er birtist í fylgissveiflum, vinstristjórn 2009-2013 yfir í hægristjórn 2013-2016 og loks stjórnarkreppustjórn 2016-2017, og fjölgun flokka - þeir eru sjö á alþingi núna.
Flóknari skýring er að uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna, stofnun Samfylkingar og Vinstri grænna um aldamótin, var ekki búin að finna sér farveg þegar erlendir straumar sjálfhverfustjórnmála (ídentití-pólitík) brutust inn á sviðið. Skilgetin afkvæmi sjálfhverfustjórnmála eru Píratar og Björt framtíð vinstra megin en Viðreisn og Flokkur fólksins hægra megin. Sjálfhverfustjórnmál eru í eðli sínu sundrungarafl.
Þriðji þátturinn er tröllsleg fyrirferð Evrópuumræðunnar tímabilið 2005 til 2013 sem t.d. gerði Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk að svörnum óvinum. Þessir flokkar voru í langan tíma á lýðveldisárunum í pólitísku vinfengi, sbr. viðreisnarárin.
Loks er það fjórði liðurinn sem er að öfgalausi og rótfasti miðjuflokkur stjórnmálanna, Framsóknarflokkurinn, fór nokkur pólitísk heljarstökk á fáum árum. ESB-sinnaður undir Halldóri Ásgrímssyni, smælki í höndum Guðna Ágústssonar en varð stærsti flokkur landsins með Sigmund Davíð sem formann og þar að auki eindreginn andstæðingur ESB-aðilar. Sigurður Ingi, sveitungi Guðna, stýrir Framsókn frá 2017 og, tja, tryggði flokknum setu í stjórnarráðinu.
Hver einstakur af þeim fjórum þáttum sem hér eru nefndir gæti leitt til átakastjórnmála, þar sem menn veifa fremur röngu tré en öngvu. Í ljósi hamfaranna er mesta furða að hér ríki ekki borgarastyrjöld.
Gagnrýni á gagnrýni um gagnrýni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu er landið de facto í Evrópusambandinu og enginn stjórnmálaflokkur, sem á sæti á Alþingi, vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem landið hefur engin áhrif.
Engir öfgaflokkar eiga sæti á Alþingi, til að mynda hvorki fasistar né kommúnistar.
Framsóknarflokkurinn klofnaði einungis vegna hins sjálfhverfa Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem ekki sætti sig við að vera ekki formaður flokksins, sást varla á Alþingi og þykist búa á landsbyggðinni.
Sjálfstæðisflokkurinn var allt frá stofnun flokksins árið 1929 klofinn í íhaldsmenn, frjálslynda og frjálshyggjumenn.
Meira kraðak fannst ekki í nokkrum flokki, enda klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn margoft á síðustu öld, löngu fyrir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008.
Þorsteinn Briem, 7.2.2018 kl. 01:02
Sástu heljarstökk Framsóknar Steini? Þeir voru búnir að æfa lengi í leyni meðan Sjálfstæðisflokkurinn barðist einn á móti ESB, með laumu-esbfarþega.
Helga Kristjánsdóttir, 7.2.2018 kl. 06:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.