Laugardagur, 27. janúar 2018
Borgaralaun fyrir blaðamenn? Nei, takk
Morgunblaðið er eini almenningsfjölmiðillinn á Íslandi. Tugir þúsundir manna kaupa blaðið i áskrift. Enginn kaupir áskrift að RÚV, fólk er neytt til að borga. Enginn kaupir Fréttablaðið, það er auglýsingablað. Sama gildir um Kjarnann, Stundina, Eyjuna og aðra netmiðla.
Þeir sem krefjast ríkisfjár til styrktar fjölmiðlum eru í raun að biðja um að opinbert fé verði notað til að niðurgreiða skoðanir einstaklinga og smáhópa hér og hvar í samfélaginu. En hvers vegna í ósköpunum ætti ríkið að niðurgreiða útgáfur eins og Eyjuna, Kjarnann og Stundina? Eða starfsmannamiðilinn RÚV?
Fjölmiðlar kosta sama og ekkert, mælt í útgáfukostnaði. Hver og einn getur stofnað heimasíðu eða blogg og þar með er orðinn til fjölmiðill.
Fréttir sem fjölmiðlar flytja eru meira og minna skoðanir skreyttar staðreyndum. Og staðreyndirnar eru allar ókeypis, þær liggja á netinu og bíða eftir að vera gúgglaðar.
Til hvers í veröldinni á ríkið að borga fólki til að segja öðru fólki skoðanir sinar?
Blaðamenn eru upp til hópa ómenntaðir, kunna enga sérfræðigrein og eru fyrst og fremst áhugamenn um stjórnmál með ríka þörf að segja öðrum sína skoðun á málefnum líðandi stundar.
Ríkisstyrkur til fjölmiðla eru í raun borgaralaun til blaðamanna. Allir fréttamenn RÚV eru í reynd á borgaralaunum. Nú vilja Stundin, Kjarninn, Eyjan og jafnvel eins manns miðill Sigurjóns M. Egilssonar, Miðjan, líka fá borgaralaun.
Dæmi um blaðamann á borgaralaunum er Egill Helgason. Hann er á ríkislaunum hjá RÚV og starfar einnig á Eyjunni sem umræðuvaki. Þetta er spillingin holdi klædd. RÚV er á framfæri ríkisins en Eyjan á að heita einkarekinn miðill. Egill auglýsir RÚV á Eyjunni og Eyjuna á RÚV. Og vill komast á tvöföld borgaralaun.
Ríkið á ekki að halda uppi skoðanamyndun í landinu með borgaralaunum til blaðamanna. Almenningur er fullfær um að mynda sér skoðun á málefnum líðandi stundar án þess að ríkið fjármagni skoðanamyndun. Það er háttur alræðisríkja að eiga og fjármagna fjölmiðla, ekki frjálsra þjóðfélaga.
Auglýsendur vara við breytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Um leið og byrjað verður að niðurgreiða rekstur einkarekinna fjölmiðla (hvaða fífli datt eiginlega í hug að leggja það til?) er auðvitað morgunljóst að eftirlit með þessum fjölmiðlum verður eflt til muna. Eða gengur það að skattfé almennings sé notað til að niðurgreiða alls kyns jaðarskoðanir (t.d. frjálshyggju) og "hatursáróður" (t.d. gagnrýni á siðferðilegar forsendur fóstureyðinga)? Nei, auðvitað ekki. Þeir sem ætla að fá peninginn munu auðvitað þurfa að fylgja línunni, og hana er þegar byrjað að móta.
Ég held að það sé frjálsum skoðanaskiptum mun hollara að hafa áfram óbreytt ástand með RÚV á ríkisjötunni en aðrir fjölmiðlar berjist í bökkum. "Betra er að vera barður þræll en feitur þjónn" eftir allt saman.
Þorsteinn Siglaugsson, 27.1.2018 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.