Fimmtudagur, 11. janúar 2018
Fjölskyldurnar 14 urðu 300 á hálfri öld
Á áttunda áratug síðustu aldar var talað um að 14 fjölskyldur ættu Ísland. Nánari talning gaf að fjölskyldurnar væru í sex ættum. Ef eitt þúsund Íslendingar eiga Ísland í dag, í merkingunni allt eigið fé einstaklinga í fyrirtækjum, og vísitölufjölskyldan er þrír einstaklingar þá fáum við ríflega 300 fjölskyldur.
Og ef hlutföllin milli fjölskyldna og ætta er það sama og fyrir hálfri öld gerir þetta um 150 ættir. Það er harla góð frammistaða hjá okkar samfélagi að dreifa þjóðarauðnum frá sex ættum í 150 á hálfri öld.
Við ættum að fá hagfræðinga og ættfræðinga að greina þessar 150 ættir til að færa þeim þakklæti þjóðarinnar. Einhver þarf að nenna að eiga peninga í kapítalísku þjóðfélagi. Annars yrði allt hirt af ríki og lífeyrissjóðum.
1.000 efnamestu eiga nær allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú frekar einkennilegur útreikningur verð ég að segja. Samkvæmt þessu eru sjö manns í einni ætt!
Villan hjá þér er sú að gera ráð fyrir að fjölskyldurnar 14 hafi verið þriggja manna vísitölufjölskyldur, en það er auðvitað fjarri lagi.
Þorsteinn Siglaugsson, 11.1.2018 kl. 11:51
Jú, þetta er frjálslegt heilahopp, svona eins og þetta með fjölskyldurnar 14 fyrir hálfri öld.
Tilgangurinn var að draga athygli að því að sláandi yfirlýsingar eru iðulega ýkjur ef ekki skrumskæling á veruleikanum.
Páll Vilhjálmsson, 11.1.2018 kl. 12:27
Hér er ruglað saman stórfjölskyldum og kjarnafjölskyldum.
Ályktanir dregnar af því eru jafn rangar og forsendurnar.
Ef stórfjölskylda telur 50 manns geta 20 slíkar fjölskyldur myndað 1000 manna hóp. Ekki er útilokað að undan einni fjölskyldu hafi á hálfri öld getað komið 50 manns þó líklega sé meðalfjöldinn lægri en það.
Sannleikurinn liggur sennilega einhversstaðar á milli.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.1.2018 kl. 14:56
Skrumskældur veruleiki batnar nú yfirleitt ekki með frekari skrumskælingum. Meginatriðið í þessu er auðvitað það að fé leitar þangað sem það er fyrir og ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér.
Þorsteinn Siglaugsson, 11.1.2018 kl. 15:02
Jú það er nefninlega óeðlilegt að fé skuli frekar rata þangað sem nóg er af því fyrir heldur en til þeirra sem líða skort. Eðlileg forgangsröðun væri þvert á móti að leggja áherslu á að enginn líði skort og að því frágengnu, þá fyrst megi þeir ríku verða ríkari.
Í raunveruleikanum hefur þessu því miður verið snúið á hvolf þannig að fyrst verða þeir ríku ríkari en svo fá hinir að hirða upp leifarnar sem þeir skilja eftir sig án tillits til þess hvort þær dugi til að uppfylla þær skyldur samfélagsins sem leiða af mannréttindasáttmálum.
Þessu þarf að vinda ofan af, ekki vegna neinnar stjórnmálastefnu heldur út af þeim sameiginlegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.1.2018 kl. 15:20
Hugsum okkur nú, Guðmundur, að þú gefir 10 manns eina milljón hverjum. Fimm þeirra eyða peningunum strax. Tveir borga inn á húsnæðislánin sín og eru því aðeins betur settir. Sá áttundi notar peningana til að breyta bílskúrnum sínum í stúdíóíbúð sem hann leigir til ferðamanna og notar tekjurnar til að fjárfesta í húsnæði. Smám saman efnast hann á þessu. Sá níundi kaupir bitcoin á tvær milljónir fyrir hádegi, skuldsett, og tapar öllu þegar það dettur í milljón eftir hádegi. Hann tók áhættu en var óheppinn. Sá tíundi kaupir bitcoin eftir hádegi og mokgræðir þegar það hækkar aftur daginn eftir.
Þá er spurningin þessi: Var eitthvað óeðlilegt sem átti sér stað? Auðvitað ekki. Var þá eitthvað ósanngjarnt sem átti sér stað? Auðvitað ekki. Það að maður sé forsjáll er ekki ósanngirni gagnvart þeim sem ekki eru það. Það að maður sé heppinn er ekki ósanngirni gagnvart þeim óheppnu. Eða hverjum dettur í hug að bölsótast yfir happdrættisvinningum vegna þess að þeir séu ósanngjarnir?
Hugsum svo áfram. Erfingjar þess sem græddi mest í dæminu munu erfa auðævi hans. Það er ekki ólíklegt að svipað fari með þá, að flestir eyði sínum hlut, aðrir fjárfesti, sumir séu heppnir og eftir standi einn eða tveir með pálmann í höndunum.
Þorsteinn Siglaugsson, 11.1.2018 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.