Þriðjudagur, 2. janúar 2018
Saga Íslands í 100 ár
Þjóðarsaga Íslands frá fullveldinu 1918 er í drögum eftirfarandi.
1918 - 1940 er sagan um nýfrjálsa þjóð í leit að pólitísku fyrirkomulagi. Fullveldisstjórnmál víkja fyrir stéttabaráttu. Um miðbik tímabilsins kemur fram stjórnmálaflokkur, búinn til úr Íhaldsflokknum og litlu broti kenndu við frjálslyndi. Einennisorðin ,,stétt með stétt" duga Sjálfstæðisflokknum til að verða leiðandi stjórnmálaafl í samkeppni við Kommúnistaflokk Íslands, sem er nærri jafngamall. Þjóðin býr enn í torfkofum að stórum hluta. Þéttbýlis-Íslendingar taka ekki fram úr bændum og búaliði fyrr en á seinni hluta þriðja áratugsins. Framsóknarflokkurinn er aðalflokkur landsins, sem gætir þess að hallir verði ekki reistar á mölinni á meðan helmingur þjóðarinnar býr undir moldarþaki. Kaupfélögin og SÍS ráða ferðinni í verslun og viðskiptum ásamt fjölskyldufyrirtækjum.
1940 - 1975 er saga hernáms, tæknivæðingar og sjálfstæðisbaráttu á fiskimiðum. Hernám Breta 10. maí 1940 innleiðir tækniöld. Íslendingum græddist fé í stríðinu og höfðu efni á lýðveldi undir lok þess. Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og kommúnista/sósíalista leggur grunn að blönduðu hagkerfi og velferðarkerfi. Þegar hernámið verður varanlegt klofnar þjóðin, nýsköpunarstjórnin fellur. Bandaríski herinn á Miðnesheiði myndar gjá milli efnahagslegra sjálfsstæðissinna með Sjálfstæðisflokkinn sem höfuðból og menningarlegra sjálfsstæðissinna þar sem Sósíalistaflokkurinn/Alþýðubandalagið var sterkasta vígið. Þessi gjá var ekki brúuð fyrr en 2017, þegar sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Þótt hersetan klyfi þjóðina sameinaðist hún gegn Bretum í landhelgisstríðinu sem stóð yfir með hléum í aldarfjórðung, 1950-1975. Í efnahagsmálum tapaði þjóðin sér í verðbólgu en flutti samtímis úr torfbæjum í steypt einbýli við flóa og firði.
1975 - 2000 er sagan um afnám verðbólgu og fyrstu tilraun til stjórnfestu. Síðasta uppgjörið við gamla framsóknarveldi sveitanna fór fram á þessum tíma þegar SÍS lagði upp laupana. Síðasta stórvirki Framsóknarflokksins, þangað til að Sigmund Davíð bar að garði, var að veita forstöðu ríkisstjórnarinnar sem sló af verðbólguna. Fjármálaráðherra þeirrar ríkisstjórnar, Ólafur Ragnar Grímsson, fékk þau verðlaun frá þjóðinni að verða forseti. Stjórnmálamaðurinn sem mótaði Ísland á þessum tíma var þó Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins sem starfaði fyrst með Alþýðuflokknum en síðar Framsókn og bjó til pólitískan og efnahagslegan stöðugleika í fyrsta sinn á alla fullveldissöguna. Undir forystu Davíðs varð Sjálfstæðisflokkurinn heill á andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu og skóp þar með grundvöll fyrir samstarfi flokksins við arftaka sósíalista, Vinstri græna.
2000 - 2018 er saga útrásar, blekkingar og pólitískrar upplausnar. Auðmenn yfirtóku stjórnmálakerfið í kringum aldamótin. Fyrst fjölmiðlana, síðan bankana og loks stjórnmálaflokkana. Útrásin bjó til þá blekkingu að íslenskir auðmenn gætu gengið á vatni. Þjóðin var mötuð af þeirri blekkingu, auðmenn keyptu stóreignir í gömlu höfuðborginni, Kaupmannahöfn, og kynntu sem sigur hjálendunnar yfir nýlenduveldinu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007 hét Baugsstjórnin enda borguð og keypt af auðmönnum. Bankahrunið 2008 felldi ríkisstjórina og í hönd fór tími pólitískrar upplausnar. Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins, reyndi að bylta stjórnkerfinu innan frá, með nýrri stjórnarskrá og gera Ísland að ESB-ríki. Hvorttveggja mistókst. Sigmundur Davíð gerði Framsókn að stærsta flokki landsins 2013 og bjargaði þjóðinni frá Icesave-skuldaáþján og ESB-aðild. Þriðja stórfrek Sigmundar Davíðs var skuldauppgjörið við þrotabú gömlu bankanna. Enginn stjórnmálamaður í allri sögu fullveldisins fékk meira vanþakklæti en hann. Ofsóknir fjölmiðla bjuggu í haginn fyrir hallarbyltingu í Framsókn sem keyrði Sigmund Davíð út á jaðar stjórnmálanna. En hann er enn ungur maður.
2018 - og áfram er óskrifað blað. Vonir standa til að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggi grunn að varanlegri stjórnfestu.
Fullveldishátíðin verði sjálfsprottin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.