Laugardagur, 16. september 2017
Samfélagsmiðlar, fjölmiðlar og öskurlýðveldið
Stjórnmálaumræðan breyttist með samfélagsmiðlum. Áður sáu almennir fjölmiðlar, einkum dagblöð og ljósvakamiðlar, til þess að tryggja lágmarksgæði umræðunnar. Verstu rit- og málsóðum var haldið utan síðna dagblaða og komust ekki í hljóðnemann.
Með samfélagsmiðlum komust þeir að sem áður töluðu í skúmaskotum. Margrét St. Hafsteinsdóttir lýsir fyrir okkur umræðunni og er það ófögur lesning.
Fjölmiðlar eru í samkeppni við samfélagsmiðla. Í vaxandi mæli taka fjölmiðlar upp vondu siðina, öskra fyrst og aðgæta eftirá hvort innistæða var fyrir upphrópuninni.
Verkalýðsfélagið Eining varð fyrir því að RÚV öskraði út í loftið í beinni útsendingu um mansal á veitingastað á Akureyri og notaði nafn Einingar sem skálkaskjól.
Í yfirlýsingu frá Einingu er RÚV líkt við óvandaðan samfélagsmiðil. Enda voru vinnubrögðin þau sömu og tíðkast á samfélagsmiðlum: innistæðulaust öskur.
Umræðan sem felldi ríkisstjórnina, um uppreisn æru barnaníðinga, byggði á þeim flugufæti að áratugagömul lög voru löngu orðin úrelt. Um það voru allir sammála og vinna var hafin að breyta þessum lögum. En öskur samfélagsmiðla og fjölmiðla sá til þess að ríkisstjórnin féll.
Það er ekki hægt að tala um að lítil þúfa hafi velt þungu hlassi, heldur varð fjöður að heilu hænsnabúi í umræðunni. Enda keppast nú fjölmiðlar og viðkomandi stjórnmálamenn, sem tóku undir í öskurumræðunni, við að finna aðrar og merkilegri skýringar á falli ríkisstjórnar lýðveldisins.
En það blasir við að úrelt lög sem allir voru sammála um að skyldi afnema var efniviðurinn í öskrin sem felldu ríkisstjórnina. Í útlöndum er við orðin að óskiljanlegu öskurlýðveldi. Það er ekki vel gott.
Íslensk stjórnmál í upplausn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta upphlaup kemur allavega í veg fyrir að þessi lög verði löguð í bili. Engin minnist á að síðasta höndin á að þessum aflausnarmálum (allavega annars) þegar fóru í gegn var Guðna forseta. Forsetans sem fordæmdi þetta hæst við þingsetningu.
Enn er mér óljóst hvort seinna málið var fullnað eða hvort það var bara í ferli, eða hafnað.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2017 kl. 11:45
Afsakið: Textinn atti að vera svona:
Þetta upphlaup kemur allavega í veg fyrir að þessi lög verði löguð í bili.
Engin minnist á að síðasta höndin á þessum aflausnarmálum (allavega annars) þegar þau fóru í gegn, var Guðna forseta. Forsetans sem fordæmdi þetta hæst við þingsetningu.
Enn er mér óljóst hvort seinna málið var fullnað eða hvort það var bara í ferli, eða hafnað.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2017 kl. 11:49
Takk fyrir tenginguna Páll. Öskurlýðveldið er réttnefni eins og háttalagið er í dag.
Jón Steinar: Gaman að sjá þig hér :) Góðir punktar varðandi forsetann.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 16.9.2017 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.