Miðvikudagur, 16. ágúst 2017
Nasismi, feminismi og rétturinn til lífs
Rétturinn til lífs er trúarpólitísk hreyfing í Bandaríkjunum sem leggst gegn fóstureyðingum. Í Evrópu, Íslandi og Norðurlöndum sérstaklega, stendur sú sannfæring sterkum fótum að konan ráði líkama sínum og fóstrinu þar með.
Fasismi, með nasisma sem undirflokk, er evrópsk hugmyndafræði og leiddi til öfga er lýstu sér í mannfyrirlitningu.
Þegar fóstureyðingum vegna downs-heilkenna er líkt við nasisma er í raun verið að halda fram ítrasta rétti fóstra til lífs. Á bakvið samlíkinguna liggur sannfæring um að rétturinn til lífs sé sterkari en vald konunnar til að ákveða hvort hún láti eyða fóstri eða ekki. Burtséð frá því hvort fóstrið sé heilbrigt eða ekki.
Palin líkir Íslendingum við nasista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er sammála þessu sjónarmiði að börn með Downs- heilkenni fái að lifa eins og önnur börn. Fóstureyðingar ættu einungis að vera leyfð eftir nauðganir og reyndar er það hér á landi þannig að ef um nauðgun er að ræða fer brotaþoli beint í neyðarmóttöku þannig að hægt er að bregðast við sem fyrst.
Jósef Smári Ásmundsson, 16.8.2017 kl. 17:41
Hvar er tölfræðin? Hversu margar fóstureyðingar eru framkvæmdar árlega og hversu margar þeirra eru vegna downs. Hversu mörg börn fæðast árlega og hversu mörg þeirra með downs.
Kolbrún Hilmars, 16.8.2017 kl. 18:13
Páll, rétturinn til lífs er hvorki pólitískur né tengdur trú. Þetta eru grundvallar mannréttindi.
En á móti þessari röksemd, kemur sú rökfærsla hvort fóstrið sé við líf í móðurkviði, og á hvaða stigi það sé orðið líf. Þegar fóstrið, er orðið líf ... hefur konan ekki neinn ákvörðunarrétt yfir því. Réttur fóstrins, er sterkari en réttur konunar ... rétturinn til lífs, er sterkari en persónulegar skoðanir eða ásettningur fólks.
Hvað varðar hugsuninni um "nasisma" í þessu samhengi, þá verð ég að segja að ég geri ráð fyrir að Íslendingar séu almennt aðeins betur gefnir en illa gefnir heilaþvegnir asnar. Arýar eru og voru aldrei til. Hakakrossin er merki frá Asíu, og er víðþekkt í Kína, Tíbet og Róm. Fyrirkemur á einu mósaík, í Rómversku útibúi í Köln, eitthvað um 100 e.k. Síðan eiga menn að skoða styttur af Julius Gayus Caesar, sem eru frá því fyrir Krist, og fræða sjálfan sig á því hvaðan "stóra nefið" kemur. Síðan leggja niður þessa heimskulegu umræðu, sem er fyrir löngu komin að ad. hominem.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 16.8.2017 kl. 18:51
Það er misskilningur að andstaða við fóstureyðingar vegna Downs heilkennis sé byggð á sömu forsendum og andstaða við fóstureyðingar almennt. Fólk getur vel verið hlynnt almennum rétti til fóstureyðinga, en andvígt því að einstaklingar séu valdir úr vegna sérstakra einkenna á borð við Downs heilkenni. Með því er vitanlega verið að kveða upp úr með að réttur fósturs með Downs heilkenni til lífs sé ekki hinn sami og annarra. Það er, hvernig sem á málið er litið, heldur óhugnanleg afstaða og vekur því eðlilega sterk viðbrögð hjá fólki sem hefur siðferðileg gildi í heiðri.
Þorsteinn Siglaugsson, 16.8.2017 kl. 19:19
Höfundur hefur rétt fyrir sér. Annað hvort ákveður móðirin eða lögin takmarka réttinn. Þorsteinn virðist meina að móðir sem ákveður fóstureyðingu á grundvelli einhvers konar fötlunar fósturs hafi siðferðileg gildi ekki í heiðri öndvert við hina sem gerir það á t.d. grundvelli efnahags. - Það var nefnilega það.
Einar Sveinn Hálfdánarson, 16.8.2017 kl. 20:38
Fyrir mér er þessi afstaða að hafna börnum með Downs heilkennin keimlíkt því að börn með meðalgreind séu síuð út. Í framhaldi gætum við hugsað okkur að "yfirburða börn" í gáfum og útliti verði þau einu sem fengu að fæðast en hin ekki. Erum við þá ekki komin út í kynbætur. Kannski finnst fólki fyrsta kommentið mitt sjokkerandi. Það eru sjónarmið að konan eigi að ráða yfir sínum líkama og það getur alveg verið rétt. Svo kannski er ráðið FRÆÐSLA um Downs- heilkennið frekar en að banna fóstureyðingar. Það er jú hræðslan sem ræður því að foreldrar láta eyða þessum fóstrum.
Jósef Smári Ásmundsson, 16.8.2017 kl. 20:39
Það er einmitt kynbótavinkillinn sem vekur þessi hörðu viðbrögð. Ekki efasemdir um réttmæti fóstureyðinga sem slíkra.
Þorsteinn Siglaugsson, 16.8.2017 kl. 22:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.