Þriðjudagur, 15. ágúst 2017
Góður kennari, verri og verstur
Kennari, sem sækir um starf í framhaldsskóla, og er með alla pappíra í lagi og býr að kennslureynslu er ekki ráðinn í starfið fyrr en eftir símtal, sem ræður úrslitum um hvort af ráðningu verður eða ekki.
Skólastjórnandinn tekur upp símann og hringir í skólann þar sem kennarinn starfaði áður. Hann er aðeins með eina spurningu: virkar hann?
Hvers vegna er þetta? Jú, kennari sem hefur fínustu prófgráður getur reynst handónýtur til kennslu. Allir skólastjórnendur vita þetta og af þeirri ástæðu ríkir hreinskilni um umsagnir skólastjórnenda um kennara - og þær eru gefnar í símtali en ekki tölvupósti.
Kennarar virka eða ekki af ástæðum sem liggja í persónu þeirra. Það eru eiginleikar sem bæði er erfitt er að mæla og eru ólíkir frá einum kennara til annars. Farsæll kennari þróar með sér kennsluhætti sem ríma við þá persónu sem hann er. Hann kann vitanlega faggreinina sem hann kennir en hann lærir líka hvað virkar og hvað ekki. Þegar hann nær tökum á þeim þætti kennslunnar fær hann umsögn sem heldur honum í starfi.
Umræða er um að búa til launahvetjandi kerfi fyrir kennara. Hugmyndin er að umbuna ,,góðum" kennurum. Það er vel hægt að mæla marga þætti kennslu s.s. líðan nemenda, fjölbreytileika í kennslu og námsmati, endurnýjun námsefnis og fleiri álíka liði.
En það er ekki hægt að mæla góðan kennara. Og það er ekki hægt að mæla rétta kennsluhætti. Uppskriftin er einfaldlega ekki til. Kennsla hefur verið stunduð á vesturlöndum, með líkum hætti og í dag, allt frá miðöldum. Kennari er með nemendur í skólastofu, kennir og leggur fyrir verkefni og próf og metur frammistöðu nemenda. En samt er ekki til nein forskrift að góðum kennara og réttri kennslu.
Hvers vegna er það? Kennsla er sköpun, sem verður til í samspili kennara og nemenda. Sköpun verður ekki til með forskrift.
Athugasemdir
Þar flaug jafnlaunastefnan út um gluggann.
Ragnhildur Kolka, 15.8.2017 kl. 20:37
Ja þú segir nokkuð! dóttir mín er akkurat á þessum kl.tíma að flytja á Akranes og kenna sálfræði við fjölbraut þar.Forvitnilegt að spyrja hana frétta.
Helga Kristjánsdóttir, 15.8.2017 kl. 20:56
Góðar athugasemdir!
Wilhelm Emilsson, 16.8.2017 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.